Sambúðin
Nú er ég orðin leið á því að hafa herbergisfélaga. Það er svo sem ekkert sem breyst hefur í hennar fari, hún er alltaf jafn ágæt, en þetta er farið að reyna á þolinmæðina hjá mér. Framan af lét ég samvistina ekki fara í taugarnar á mér og leit þetta allt saman jákvæðum augum, en undanfarið þarf lítið til að ég verði pirruð. Hún er til dæmis alltaf talandi í símann, með háum, hvellum rómi, oftar en ekki að rífast. Kannski er ég óþarflega smámunasöm, en mér finnst málrómurinn pirrandi og líka hvernig hún segir hlutina. Þá set ég upp headfóninn og skrúfa tónlistina upp, en heyri nú samt hæstu tónana í gegn.
Sjálf hlustar hún mjög mikið á tónlist líka, en ólíkt mér þá notar hún sjaldnast headfón heldur spilar hana í litlum hátölurum sem eru tengdir við tölvuna. Hljómgæði hátalaranna eru mjög slök og þess vegna verður tónlistin að stanslausu, mónótónísku suði í mínum hluta herbergisins. Ég er því þakklát fyrir þögnina þegar hún er í burtu. Sérstaklega átti það við fyrir vorhléð, þegar enn var frost úti, því þá vildi hún alltaf hafa rakatæki í gangi. Ég var að verða geðveik á þessu djöfulsins rakatæki, því það voru þvílík læti í því, einhver vifta sem suðaði endalaust, auk þess sem ég get svarið að það gerði ekkert gagn. Ég prófaði að standa yfir því með höndina á ristinni og fann ekki að loftið sem kom út væri nokkuð rakara en andrúmsloftið var fyrir.
Stundum stend ég mig meira að segja að því að pirra mig á því hvernig hún sefur. Í fyrsta lagi býr hún aldrei um rúmið sitt, en ég bý alltaf um mitt. Í öðru lagi þá er rúmið hennar eins og eitthvað rottubæli. Hún sefur með a.m.k. 4 teppi í hrúgu ofan á sér og liggur oftar en ekki á maganum með teppinu yfir höfðinu og lappirnar standandi út úr. Svo sefur hún í hvítum sportsokkum, sem eru skítugir, og í þykkum íþróttabuxum og bol. Ókei, ég get kannski ekki beint ætlast til þess að hún kaupi sér smekkleg náttföt, en þetta er svo ólystugt eitthvað. Það hefur komið fyrir að ég kem heim seint á kvöldin og er ekki viss hvort að hún er heima eða ekki, því það er erfitt að ráða í hvort hrúgaldið í rúminu sé á lífi eða ekki. Þá pota ég stundum í það þar til ég finn fyrir einhverju sem gæti verið fótur, og veit að þá þarf ég að ganga hljóðlega um.
Um daginn sat hún við tölvuna og borðaði pretzel-salthringi, sem hún dýfði ofan í jarðaberjajógúrt. Og hváði þegar ég sagðist aldrei hafa bragðað þessa samsetningu.
Svo fæ ég samviskubit þegar ég hryn inn um dyrnar, hlaðin pokum eftir enn einn verslunarleiðangurinn, því ég veit að hún er "anti-consumerist". Fyrir utan náttúrulega að vera grænmetisæta, án þess að það komi málinu beint við.
En svo ég sé sanngjörn þá er hún alltaf mjög vinaleg (þótt það fari í taugarnar á mér að vera alltaf spurð "how's your day been so far?" í hvert einasta skipti sem hún kemur inn). Stundum höfum við spjallað lengi fram eftir, þegar við erum á leiðinni í rúmið og það er ágætt að tala við hana. Almennt kemur okkur mjög vel saman, en það er ekki líklegt að hún hefði nokkurn tíma orðið neinn sérstakur vinur minn, ef okkur hefði ekki verið raðað tilviljunarkennt saman í herbergi. Sem betur fer er hún sjaldnast hérna um helgar, því þá fer hún til kærustunnar, en nýverið hefur reyndar dregið úr því, þar sem hún er nýbyrjuð í frjálsíþróttaliðinu. Það kom nefnilega í ljós að hún er íþróttamanneskja eftir allt saman, því hún æfði kúluvarp í highschool, og hefur nú tekið upp þá iðju á ný. Ég gat nú ekki annað en flissað þegar ég komst að því að hún væri kúluvarpari; gamla stereótýpan.
En ég ætla nú að reyna að sýna þroska og allt það og vera þolinmóð það sem eftir lifir sambúðarinnar. Samt sem áður vona ég að hún hypji sig sem fyrst þegar skóla lýkur, svo við Önni getum haft herbergið útaf fyrir okkur.
Beygingarmynd dagsins: Hlegnar
Engin ummæli:
Skrifa ummæli