föstudagur, apríl 14, 2006

South Dakota

Á morgun er föstudagurinn langi, eða Good Friday eins og hann heitir á enskunni, einhverra hluta vegna.
Af því tilefni er frí í skólanum, og er það eina páskafríið sem við fáum hérna. Enda á víst að heita að hér séu ríki og kirkja aðskilin, þótt það vilji gjarnan gleymast.
Okkur stelpunum langaði að nýta þessa þriggja daga helgi sem best, enda mikill ferðahugur í okkur. Eftir stutta umhugsun ákváðum við að stefnuna skyldi haldið til South Dakota, þar sem okkur langar að sjá hið sérkennilega mannvirki Mt.Rushmore. Við fyrstu sýn mætti halda að ekkert annað væri að sjá í þessu djúprauða repúblikanafylki, en það fer allt eftir því að hverju maður er að leita. Minnisvarðinn sjálfur stendur í Black Hill þjóðgarðinum, þar sem gæti verið gaman að ganga aðeins um og þarna má líka finna vísundahjarðir og "The Badlands", sem aðdáendur Jóakims Aðalandar ættu að muna eftir. Svo er þarna í vinnslu minnisvarði um Sioux Indíánan Crazy Horse, og fleira villta-vesturs tengt. Okkur ætti því ekki að leiðast á þessu þriggja daga ferðalagi, en til öryggis tökum við samt með nokkrar vínflöskur.
Við leigjum okkur bíl og keyrslan verður ca. 8-10 tímar hvora leið fyrir sig, þannig að þetta gæti mögulega kallast dverg-roadtrip. Þetta verður eitthvað.

Engin ummæli: