mánudagur, maí 15, 2006

Kaninn

Í veru minni hér hef ég ekki komist í kynni við marga afspyrnu heimska, þröngsýna, þjóðerniskennda og fordómafulla Ameríkana. Neikvæðu stereótýpuna sem sagt. Þrátt fyrir það hafa margir bandarísku krakkana hérna beðið mig að afsaka landa þeirra og hvað þeir séu lélegir. Þau virðast mörg sjá Evrópu í þvílíkum dýrðarljóma og langar að flytja þangað til að komast burt frá sínu eigin, óvirðingarverða landi. Ef þeim er sagt að þau líti ekki út fyrir að vera "typically American" eru þau mjög þakklát og stolt. Það er nú svolítið leiðinlegt fyrir þau greyin að vera í svona miklum mínus yfir þjóðerni sínu.

Reyndar getur verið að ég sé að kynnast ákveðnum hópi bandarískra krakka, sem eru kannski ekki málsvari þeirra allra. Það virðist t.d. vera að þeir sem ég kynnist hafi öll ferðast út fyrir Bandaríkin í lengri eða skemmri tíma, oftar en ekki í námsferðum. Þau virðast sækja meira í að kynnast okkur skiptinemunum, á meðan öðrum virðist standa nett á sama.

En mér finnst ég allavega þurfa að gefa þeim smá kredit. Það er fullt af frábæru fólki hérna og þau ættu alls ekki þurfa að vera sífellt að afsaka sig fyrir Bandaríkin. Ég kom nú einu sinni hingað af fúsum og frjálsum vilja og löngun.

Að sama skapi fannst mér hinar Evrópsku stelpurnar líka vera óþarflega neikvæðar gagnvart Bandarísku samfélagi, sérstaklega til að byrja með. Jú,jú það er gaman að snúa bökum saman og gera svolítið grín að þeim, en almennt þykir samt sjálfsagt að sýna lágmarksvirðingu þegar maður er í ókunnugu landi. Þó virðist annað sé uppi á teningnum þegar kemur að Bandaríkjunum. Vegna þess að þau eru stórveldi býst ég við, þá er í lagi að vera endalaust neikvæður og gagnrýninn á minnstu smáatriði í þeirra menningu. Ég varð stundum þreytt á því hvað stelpurnar (þær hollensku fyrst og fremst) gátu velt sér upp úr klæðaburðinum, matarvenjunum og hvað þau væru nú öll ljót og feit.

Snemma í febrúar eyddum við heilum tíma í fjölmiðlakúrsinum í að tala um Múhameðsmyndirnar og meðhöndlun fjölmiðla á þeim. Eftir tímann fór Jantien mikinn í yfirlýsingum um hve heimskir bekkjarfélagar okkar væru og hvað þau vissu ekkert um heiminn í kringum sig osfrv. Ég skildi ekki hvernig hún gat fengið það út, eða leyft sér að segja þetta, því hún var sú eina í bekknum sem hafði aldrei heyrt minnst á þetta mál og vissi ekkert um hvað það snérist. Nokkrum vikum seinna kom líka í ljós að hún vissi ekki hver Condoleezza Rice er. Þetta er náttúrulega þvílík hræsni; ef þú lætur svona grundvallarhluti fara fram hjá þér, þá hefurðu ekki efni á því að fordæma fávísi annarra. Jafnvel þótt þeir séu Kanar og allir hafi, að því er virðist, veiðileyfi á Kanana.

Ég fordæmi því þessa hegðun og bið Guð almáttugan að blessa Bandaríkin; land hinna frjálsu og heimili hinna hugrökku.

Engin ummæli: