mánudagur, maí 08, 2006

Útlendingurinn

Stundum finn ég fyrir því að það háir mér í skólanum að vera útlendingur. Í fjölmiðlakúrsinum til dæmis, í síðustu viku, var kennarinn að segja sögu af því þegar hann var að snapa viðtöl í einhverri ákveðinni götu, í ákveðnu hverfi, og sá þar vissan mann sem bekkurinn greinilega kannaðist við. Þetta voru víst ógurlega sniðugar kringumstæður af viðbrögðum bekkjarins að dæma, en við Jantien og Elise vorum algjörlega út úr og vissum ekkert um hvað var verið að tala. Í þessum kúrsi eigum við líka að láta okkur detta í hug “Story Ideas” sem við vinnu síðan með og skrifum greinar um. Þema kúrsins er “Race and Ethnicity in the Media” og eiga verkefnin því að vera greinar um kynþáttatengd efni, staðbundin við Minnesota og helst tvíburaborgirnar. Það reyndist erfiðara en ég hélt að fá hugmyndir sem eru bæði áhugaverðar (að mati kennarans) og framkvæmanlegar (að mínu mati). Ég vil helst forðast að þurfa að taka strætó í hinn enda borgarinnar til að taka viðtal við eitthvað fólk, en hver grein þarf að hafa a.m.k. 3-5 heimildamenn. Til að fá hugmyndir fletti ég í gegnum hin og þessi “minnihlutablöð”; African Tribune, Hmong Times osfrv. Þegar ég heyrði svo hugmyndir hinna í bekknum var það alltaf eitthvað alveg nýtt fyrir mér, sem ég vissi ekkert um; allt frá hindúa og múslima sem ráku sameiginlega kaffihús og rakarastofu, til sérstakra skóla sem verið var að stofna fyrir S-Ameríska innflytjendur, eða gagnfræðiskóla í einhverju úthverfi sem hafði bannað að rapptónlist væri spiluð á skólaskemmtunum. Ég átti nóg með að taka litla háskólasamfélagið inn, hvað þá allt kynþátta-makrókosmóið í Minnesota.

Síðasta grein sem ég skilaði inn var innblásinn af herbergisfélaga mínum. Hún vann sem sjálfboðaliði í athvarfi fyrir heimilislausar fjölskyldur, og sagði mér að þangað leituðu nánast eingöngu svertingjar. Á tímabili sá ég mjög eftir því að hafa lagt þess hugmynd fram, því kennaranum mínum leist mjög vel á hana og vildi að sjálfsögðu að ég færi í athvarfið og tæki viðtöl. Það gekk nú samt ágætlega eftir allt saman, þótt ég hafi verið stressuð fyrirfram. Athvarfið var í kjallaranum á kirkju í St.Paul og óneitanlega skar ég mig úr hópnum þar, en ég fékk að taka viðtal við heimilislausa fjölskyldu sem kom hingað frá St.Louis, og uppskar A fyrir verkefnið.

Nú er síðasta verkefnið framundan og á það að vera aðeins umfangsmeira en hin. Ég ákvað að vera sniðug og reyna að sameina það lokaverkefninu mínu í Sex & Sexuality til að spara tíma, en það er í tengslum við MOAPPP, þar sem ég var sjálfboðaliði, og fjallar um háa fæðingartíðni meðal Latino-unglinga í Bandaríkjunum. Nema kennarinn vill náttúrulega að ég taki viðtöl við latino táningsmæður svo greinin verði almennileg. Svo ég hef verið að reyna að koma því í kring, en það hefur ekki gengið vel. Hingað til hef ég bara náð viðtali við lækna og starfsfólk á klíníkstofum fyrir latino stelpur, en það gengur hægt að redda viðtali við stelpurnar sjálfar. Síðasta föstudagsmorgun vaknaði ég meira að segja klukkan sex til að fara á ráðstefnu í Minneapolis um táningsmæður, en hafði lítið upp úr því námslega þótt ráðstefnan væri áhugaverð (og góðar möffins í boði líka). Svo ég hef verið að reyna að hringja í fólk til að koma á fundi með einhverjum unglingsstelpum, og símafóbían mín hefur ekkert skánað, sem þýðir að ég þarf þvílíkt að peppa mig upp fyrir hvert símtal.

Ég get líka ekki að því gert að mér finnst hálfóþægilegt að taka svona viðtöl, því mér finnst ég vera að þröngva mér upp á fólkið og velta mér upp úr vandamálum þeirra. Þannig leið mér t.d. varðandi athvarfið fyrir heimilislausa. Fólkið þar hafði ekkert upp úr því að veita mér viðtal, það er ekki eins og saga þeirra verði birt eða þau græði nokkuð á því að eyða tíma sínum í skólaverkefnið mitt.

Allavega. Kjarninn er sá að það háir mér ekkert stórkostlega að vera útlendingur hérna, en ég finn samt stundum fyrir því varðandi svona lítil atriði sem ég hugsaði ekki um fyrirfram. Og það eru einmitt þau atriði sem fólkið hérna gerir sér ekki grein fyrir að eru mér erfið eða óskiljanleg, vegna þess að þau eru svo vön því úr sínu daglega umhverfi. Það er eins með sumt heima á Íslandi, hlutir sem maður er svo vanur að maður fattar ekki að þeir eru öðrum framandi. Jantien hefur til dæmis aldrei á ævi sinni farið í heitan pott. Votts öpp viþ ðat? Er til sá Íslendingur sem aldrei hefur stigið fæti í heitan pott?

Jæja ég er byrjuð að þvaðra, best að fara í bælið.

Engin ummæli: