miðvikudagur, júní 28, 2006

Í fréttum er þetta helst

Mér sýnist á öllu að mitt fréttamat sé eitthvað öfugsnúið. Fréttirnar af mengunarslysinu á Eskifirði í gær þreyttu mig a.m.k. fljótt. Ég veit að svona á ekki að koma fyrir, einhver hefði mögulega getað dáið og allt það, nokkrir fóru á gjörgæslu. Áhugi minn var samt byrjaður að dala áður en kvöldfréttir á Rúv byrjuðu, og mér fannst einhvern veginn ekki að tíma mínum væri vel varið í að horfa á Baldvin Þór Bergsson fylgja sjúkrabílnum eftir læv inn á spítalaplanið.

Á hinn bóginn fannst mér mjög merkilegt að heyra um lagabreytingarnar sem tóku gildi í gær, um réttindin samkynhneigðra. Ég skammast mín eiginlega fyrir að hafa ekki vitað af því að þetta hefði allt verið samþykkt um mánaðamótin. Ég er líka hissa á því að ekki sé meira talað um þetta en raunin er, en sýran á Eskifirði fær alla athyglina. Kannski voru fréttir undirlagðar af þessu 2.júní, ég var náttúrulega ekki á landinu þá svo ég veit það ekki. Þegar frumvarpið var fyrst lagt fram í fyrrasumar var þetta reyndar töluvert í umræðunni, Árni Magnússon hélt þarna ræðu á Gay Pride og á sama tíma streymdu lesendabréf inn á Moggann og Fréttablaðið, frá fólki sem vildi ekki kalla sig hommahatara en var það augljóslega. Nú mega samkynhneigðir frumættleiða, fara í tæknifrjóvgun, skrá sig í sambúð ofl. og um það er voða lítið sagt. Meira að segja hommahatararnir eru hljóðir. Allavega ennþá. Mín tilfinning er sú að þetta sé miklu merkilegra heldur en mengunarslysið á Eskifirði.

Uppfærsla kl.19:40
Ég er samt ekki að reyna að ýja að fordómar gegn samkynhneigðum sé ástæðua þess að ekki var fjallað meira um þetta. Mig hefði bara langað að fá fréttaskýringu sem fræddi mig meira um þessa lagabreytingu og t.d. samanburð Íslands við önnur lönd osfrv. Mér finnst það áhugavert. Áhugaverðara t.d. en umfjöllunin í Kastljósinu núna um vítakeppni lukkudýra.

Engin ummæli: