mánudagur, júní 26, 2006

Ármannsfellið fagurblátt

Þessi helgi var endurnærandi. Á laugardaginn gengum við Önni hlíðar Ármannsfells í veðurblíðunni. Svo lögðumst við í græna lautu sem ilmaði af bláberjalyngi, afklæddumst eins og velsæmiskenndin og hitastigið leyfðu og sofnuðum í sólinni, út frá árniðnum. Þegar fór að líða að kvöldmatartíma höfðum við legið þar í næstum tvo klukkutíma án þess að verða vör við nokkurn mann, ein í heiminum ásamt rollunum og lóunni. Slíkt er ekki mögulegt hvar sem er í heiminum. Við lölluðum okkur síðan niður á Þingvelli og dagurinn fullkomnaðist þegar við komum aftur í bústaðinn á Laugavatni þar sem beið okkar kaldur bjór og grillmáltíð í góðra vina hópi. Stundum er lífið ekkert rosalega ömurlegt.

Engin ummæli: