fimmtudagur, júní 15, 2006

Láta vita af sér

Já ég er sem sagt komin heim, og byrjuð í báðum vinnum með helgarvaktir í rigningunni og júnígrámyglunni. Hversdagslífið er sem sagt tekið við og ég óttaðist að það yrði eins og löðrungur í andlitið, eftir hálfs árs frí frá raunveruleikanum, en það hefur bara verið notalegt og gott.

Önni kom til mín þann 17.maí, þá var ég búin að stokka upp herberginu mínu eftir brotthvarf herbergisfélagans, og mér tókst bara að gera það mjög heimilislegt. Og ekki þótt mér leiðinlegt að skipta herbergisfélaganum út fyrir Önna. Það var mér líka mikils virði að hann fengi að kynnast vinum mínum. Þá getur hann allavega verið aðeins með á nótunum þegar ég byrja á öllu “sko þegar ég var í Amríkunni....” röflinu. Hann fékk svo að feta í fótspor mín um tvíburaborgirnar (en þau lágu einna helst á staðinn Chino Latino í Uptown Minneapolis þar sem fæst syndsamlegt súkkulaðieldfjall.)

Loks var svo komið að því að kveðja Hamline með trega, en mér fannst það nú samt alveg tímabært, enda lítið við að vera þar lengur. Auk þess áttum við spennandi ferð fyrir höndum. Ég ætla nú ekki að rekja ferðasöguna í smáatriðum, en leiðin lá sem sagt frá Minneapolis til Las Vegas, þaðan til L.A. með flugi og svo með Greyhound yfir nótt til San Francisco. Þar vorum við í 6 nætur, auk tveggja daga í Napa Valley, þangað sem við ókum með bílaleigubíl og gistum eina nótt. Við náðum því að taka ágætis Californiu-rúnt með smá viðkomu í Nevada og tókst mér þannig að fara til sex fylkja í þessari sex mánaða heimsókn minni til Bandaríkjanna.

Við vorum 5 daga í Los Angeles og áttum þar stefnumót við Pablo, Jantien og Elise, vini mína úr Hamline. Saman skemmtum við okkur vel á ströndinni, í Hollywood og á veitingastöðum L.A. og ekki síður á spjalli með hausklóru inni á hótelherbergi. Gleðin endaði svo öll snögglega með afar dramatískri kveðjustund á brautarpalli, og var það mín fyrsta kveðjustund við slíka kringumstæður.
Ef ég á að bera saman þessar tvær borgir, þá trónir San Fran hátt yfir L.A. Sú síðarnefnda er svo sem ágæt, og verð heimsóknar, en ekki myndi ég vilja búa þar. Þeim sem hyggja á ferðalag þangað myndi ég ráðleggja að gista í Santa Monica frekar en í Hollywood, þar sem við vorum, allavega ef vilji er fyrir að kíkja á ströndina. Það er ekki svo margt að sjá í Hollywood, og West-Hollywood er heldur ekki nema í meðallagi áhugavert hverfi. Strandhverfin eru fallegri.

SF er mun notalegri og skemmtilegri, enda kannski ekki nema von þar sem töluverður stærðarmunur er á borgunum. Í SF gistum við á frábæru hóteli á North Beach, sem er ítalska hverfið í SF. Þar hangir hvítlaukslykt í loftinu, enda langar raðir af ítölskum veitingastöðum, þar sem einungis ítalskir þjónar vinna. Einn af hápunktum SF dvalarinnar var svo að sjálfsögðu kvöldstundin í Alcatraz, sem er magnaður staður.
San Francisco er eiginlega í uppáhaldi af viðkomustöðum mínum í Bandaríkjunum. Reyndar er erfitt að gera upp á milli NY og SF, en ef ég þyrfti að velja myndi ég heldur vilja búa í SF. Borgin sjálf er fjölbreytt en samt notaleg, en svo er líka stutt í ótrúlega fjölbreytni í land-og loftslagi.

Og svo er maður bara kominn heim; góðum vinum, ljúfum minningum, þúsundum mynda og 10 skópörum ríkari.

Stuttu eftir heimkomuna fór mig að klæja í fingurna af löngun til að hitta (íslensku) vini mína. Þau reyndust vera mjög spennt að hitta mig líka og kom fljótt í ljós að þau höfðu staðið í þeirri trú að við Önni værum með einhverja tilkynningu. Þá hafði einhver (líklegast Sturla bróðir minn) spunnið það upp, og síðan vatt þetta upp á sig þar til fólk var byrjað að halda neyðarfundi á msn til að kryfja þetta áhyggjumál. Ekki voru þau tilbúin að trúa því að við hefðum snúist á rönguna og trúlofað okkur, og ólétta gat varla gengið upp tímalega séð. Þessi skröksaga olli því miklum heilabrotum að því er virðist, en við Önni komum alveg af fjöllum þegar við vorum spurð og þurftum að valda þeim létti/vonbrigðum, því við höfum enga tilkynningu. Nema kannski þá að við höfum líklega aldrei verið glaðari með hvort annað, en það er nú varla fréttnæmt.

Engin ummæli: