miðvikudagur, október 25, 2006

Kvenfyrirlitning

Þegar fjöldamorðin í Amish þorpinu voru framin fyrir nokkrum vikum vakti það athygli mína að morðinginn sleppti strákunum úr skólastofunni en hélt bara stelpunum eftir. Ég velti því fyrir mér hvaða hvatir hefðu legið þar að baki, hvers vegna hann vildi bara drepa stelpur. Svarið var ekki að finna í fréttum af málinu og ég velti þessu svo sem ekki meira fyrir mér. Ekki fyrr en ég las á bloggi þýðingu greinar úr NY Times og áttaði mig á því að ástæðan virðist vera svo augljós að enginn hafi nennt að vekja máls á því.
Ég ætla að birta hérna þann hluta úr greininni sem mér fannst áhugaverður:

-------------------------------------------------------------------

Nýlega voru gerðar skotárásir á nemendur í tveimur skólum í Bandaríkjunum, annars vegar í barnaskóla Amish fólks í Pennsylvaníu og hins vegar í menntaskóla (Platte Canyon high scool) í Bailey Colorado. Í báðum tilvikum aðskildu morðingjarnir stelpur frá strákum og réðust svo eingöngu á stelpurnar.

Í Amish skólanum var skotið á tíu stelpur og fimm þeirra dóu. Í Colorado dó ein stelpa, fimm lifðu af, þær höfðu allar verið beittar kynferðisofbeldi.

Í allri fjölmiðlaumfjölluninni í kjölfarið var lítið um það fjallað að aðeins var ráðist á stelpur. Ímyndið ykkur að vopnaður maður hefði farið inn í skóla og skipt krökkunum eftir kynþætti eða trú, og skotið svo bara svörtu krakkana. Eða bara hvítu krakkana. Eða bara gyðingana.

Það hefði allt orðið vitlaust. Þjóðin hefði fyrst hrokkið í kút af hryllingi og sett svo í gang átak til að koma í veg fyrir að fordómar gætu birst með svo ógnvekjandi hætti. Og enginn hefði velkst í vafa um að árásin væri glæpur sprottinn af hatri.

Ekkert slíkt gerðist nú vegna þess að þetta voru bara stelpur, og við erum orðin svo vön að búa í samfélagi sem er svo gegnsósa af kvenfyrirlitningu, að ofbeldi gegn konum er viðtekin staðreynd. Frásagnir af nauðgunum, morðum og misþyrmingum á konum á öllum aldri eru uppistaða frétta og jafn kunnuglegar og veðurfregnir.

-------------------------------------------------------------------

Upprunalegu greinina úr NY Times má finna hér og hér.
Íslensku þýðinguna sem ég rakst á má finna hér.

Restin af greininni finnst mér ekki alveg nógu vel heppnuð, en þessi upphafspunktur er mjög góður. Það er skrýtið að ekkert hafi verið rætt að í báðum þessum tilfellum voru bara stelpur teknar fyrir, einungis vegna þess að þær eru stelpur. Það virðist sem ofbeldi sem beinist gegn konum sem hóp sé svo viðbúið að það sé varla ástæða til að ræða það sérstaklega lengur.

Engin ummæli: