miðvikudagur, október 04, 2006

Leiðin til Guantanamo

Í kvöld fór ég að sjá myndina Road to Guantanamo í boði RFF. Eins og við mátti búast var myndin mjög áhrifarík, en þetta er sem sagt leikin heimildamynd um þrjá bresk/pakistanska stráka sem var haldið föngnum í Guantanamo í rúm tvö ár. Að myndinni lokinni fóru tveir þeirra á svið og sátu (stóðu reyndar) fyrir svörum.

Eins og svo margt annað sem miður fer í heiminum, hafa atburðirnir í Guantanamo verið frekar fjarlægir mínu hversdagslega lífi. Jú ég hef séð myndirnar af þeim í appelsínugöllunum þar sem þeir eru látnir krjúpa með hauspoka, ég hef heyrt af pyntingunum og hugsað með mér að svona eigi þetta ekki að vera. Samt er auðvelt að hrista af sér óhuginn, en það tekur kannski aðeins lengri tíma núna, því það stuðaði mig að sjá þá standa þarna, Ruhal Ahmed og Shafiq Rasul. Þeir eyddu næstum þremur árum af ævi sinni, á mínum aldri, í haldi á Kúbu án þess að réttað væri yfir þeim eða gefin út ákæra, og nú stóðu þeir þarna í Tjarnarbíói. Á sviðinu þar sem að ég lék mér með Herranótt, sömu árin tvö og þeir voru í Guantanamo. Þótt það sé klént, þá fann ég fyrir því að þetta kæmi mér við, vegna þess að þeir eru hluti af heiminum, og ég er hluti af heiminum, og þetta kvöld tengdumst við.

Svo er nú reyndar annað mál að mér fannst myndin aldrei skýra almennilega hvað þeir voru eiginlega að þvælast í Afghanistan, og það má svo sem auðveldlega efast um tilætlanir þeirra þar. Hvernig í ósköpunum komu þeir sér eiginlega í þessar aðstæður? Hvernig í fjandanum fóru þeir frá því að ætla í brúðkaup í Pakistan, en enda á víglínunni í Afghanistan? Myndin gefur helst til kynna að þetta hafi bara verið einhver vitleysisgangur í þeim, sem gerði þá að fórnarlömbum aðstæðna.

En jafnvel þó svo eitthvað meira hafi hangið á spýtunni, þótt þeir hafi kannski smitast af vígahug trúbræðra sinna og viljað leggja sitt af mörkum, þá er erfitt að trúa því að þessir strákar hafi verið efni í hættulegustu menn heimsins. Og ómögulegt að réttlæta meðferðina sem þeir máttu þola.

Engin ummæli: