miðvikudagur, október 04, 2006

Vaaandræðalegt!

Ég var að lenda í vandræðalegasta atviki sem að ég hef komið mér í lengi. Þannig er mál með vexti að ég skráði mig um daginn í óvissuferð sem farin verður með vinnunni næstu helgi, en ákvað svo að hætta við það eftir allt saman. Þess vegna sendi ég yfirmanni mínum ímeil núna áðan, til að láta vita, svo ekki yrði gert ráð fyrir mér.

Nema hvað. Titill póstsins átti að vera "óvissuferðin". Þegar ég stimpla ó-ið í línuna kemur upp í minninu titill á ímeili sem ég sendi Ásdísi í fyrravetur, þegar hana langaði til að lesa fyrirlesturinn minn úr Sex&Sexuality kúrsinum sem ég tók í Hamline. Mér fannst titillinn fyndinn og sýndi því Ásdísi hann aftur, þar sem hún situr nú gegnt mér á bókhlöðunni. Svo kláraði ég ímeilið og sendi það. Um leið og ég ýtti á "send" takkann fattaði ég að ég hafði gleymt að breyta titlinum aftur í "óvissuferðin."

Ég sendi sem sagt yfirmanni mínum ímeil með yfirskriftinni "Ógeðslegt klám!!" Sekúndu síðar öskraði ég í fyrsta skipti á bókhlöðunni.

Engin ummæli: