sunnudagur, nóvember 26, 2006

Drottningin
Í vikunni sá ég myndina The Queen í bíó. Mig hafði langað að sjá hana frá upphafi en dreif mig aldrei fyrr en nú þegar stefndi í að sýningum yrði brátt hætt. Myndin fjallar um Elísabetu drottningu og vikurnar í kringum banaslys Díönu prinsessu árið 1997.

Ég var bara 12 ára þegar Díana dó en ég man samt nákvæmlega eftir því þegar það gerðist. Ég sat á bríkinni á hvíta sófanum heima sem eitt sinn var og horfði á fréttayfirlit sjónvarpsins klukkan fimm, þar sem dauði Díönu var fyrsta frétt. (Ég veit ekki hvort ég horfði reglulega á fréttir á þessum aldri. Kannski var ég bara að bíða eftir að Star Trek: Voyager byrjaði)

Þegar ég heyrði þessa frétt sló það mig strax að þetta væri fyrsta Kennedy/Lennon upplifun ævi minnar, enda hef ég munað það alla tíða síðan. (Seinna varð auðvitað 11.september stærsta Kennedy/Lennon mómentið, allavega fram til þessa.) Skömmu síðar þegar heyrði ég mömmu keyra niður götuna á leið úr hesthúsunum (hún keyrði þá díseljeppa með mjög auðkennanlegu vélarhljóði) hljóp ég uppnumin út til að bera henni tíðindin.

Ég hafði aldrei haft neinn sérstakan áhuga á Díönu eða konungsfjölskyldunni, en dauði hennar og eftirmálar hans, þ.e. viðbrögð Bresku þjóðarinnar, hrifu mig einhverra hluta vegna. Næstu daga drakk ég í mig fréttir um málið og tók upp á því að safna blaðaúrklippum sem fjölluðu um þetta. Á endanum átti ég plastumslag fullt af greinum og myndum. Mér fannst heillandi að sjá samhug bresku þjóðarinnar; mannmergðina og blómahafið utan við Buckingham-höll. Nokkrum árum seinna gróf ég umslagið upp úr skúffu og henti öllum úrklippunum enda höfðu áhrifin þá dofnað.
Nú eftir að hafa séð myndina rifjast upp fyrir mér hvers vegna ég hreifst svona með þessum atburðum og ég sé hálfpartinn eftir því að hafa hent úrklippunum. Það væri gaman að líta aftur yfir þær núna og bera saman við myndina.
Annars mæli ég með The Queen. Þetta er mjög vönduð og vel leikin mynd sem ég naut fram í fingurgóma.

Engin ummæli: