þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Æjæjæj

Ég er nú meiri hörmungarbloggarinn. Málið er bara að ég hef verið haldin einhverju tölvuógeði undanfarið. Í mörg ár hef ég verið haldin internetfíkn í bylgum, en þetta er eflaust dýpsta lægðin (eða hæsta hæðin, eftir því hvernig maður lítur á það) í þeim efnum. Í síðustu viku liðu 2 heilir dagar án þess að ég kveikti á tölvunni minni. Ég er með algert ógeð á msn og þá sjaldan sem ég kíki á netpóstinn minn nenni ég tæplega að svara ímeilum. Samt er bloggarinn í mér orðin svo rótgróinn að í daglegum starfa er ég alltaf að hugsa með mér "ég ætti nú að blogga um þetta/hitt". Bloggþurrðin stafar því ekki af hugmyndaleysi heldur ónennu.

Nú hefur þetta blogg verið starfrækt í rúmlega 4 ár og á svona tímum stopulla færslna íhuga ég stundum hvort rétt væri að hætta þessu bara. Ég sé samt ekki fyrir mér að það muni gerast neitt á næstunni. Stundum er ég líka óþægilega minnt á það að þessi skrif eru öllum opin, og ótrúlegasta fólk reynist lesa þetta. Þá velti ég því líka fyrir mér hvort þetta sé nokkuð sniðugt. En mér finnst bara of gaman að blogga til að hætta því, og ég er líka háð því að skrifa hérna þegar þannig liggur á mér. Það þarf því eitthvað mikið að gerast til að þetta blogg verði lagt niður, jafnvel þótt rúmar 2 vikur líði á milli pósta. Æstustu aðdáendur mínir geta því látið af örvæntingunni um sinn.

Engin ummæli: