miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Lesherbergi

Í gærkvöldi hófumst við Önni handa við að breyta fyrrverandi herberginu hans Kára í lesherbergi. Það er reyndar erfitt að byrja á svona framkvæmd án þess að hafa tíma til þess að fara alla leið. Undanfarnar vikur hefur verið frekar draslaralegt hjá okkur enda erum við lítið heima, en mest í skólanum, á Bókhlöðunni eða í vinnunni. Bækurnar eru orðnar of margar í hillurnar og eru því í stöflum, ljósaperur eru sprungnar, fataskápurinn að fara á límingunum og blaðakarfan löngu orðin flæðandi full. Ég get varla beðið eftir að að skurka í þessu að loknum jólaprófum, en þangað til gerum við lítið annað en að dusta af yfirborðinu.

En þegar prófatímabil hefjast er ekki lengur vært á Þjóbó og því aðkallandi að útbúa sæmilega lesaðstöðu heima. Verkið verður ekki fullkomnað fyrr en tími gefst til, en nú erum við alla vega búin að rýma hérna fyrir tveimur skrifborðum og námsbókahillu. Því munum hita okkur te eftir kvöldmat og sitja hér saman við lestur fram að háttatíma. Það er svo gott að eiga notalegt heimili á svona dögum þegar næðir kuldaél, yfir móa og mel, myrkt sem hel.

Engin ummæli: