laugardagur, janúar 20, 2007

Bloggið mitt

Eins og glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir uppfærði ég síðuna hjá mér lítillega. Það hafði reyndar í för með sér að kommentin duttu (tímabundið) út. Ég er að vinna í því að setja þau inn aftur, reyndar eru sáraeinfaldar leiðbeiningar um þetta inni á haloscan, en ég hef nokkrum sinnum farið nákvæmlega eftir þeim og ekkert gerist.
Í kjölfar þessarar uppfærslu hef ég líka tekið til við að flokka færslurnar mínar, eða merkja þær með "labels". Þetta reyndist vera erfiðara en ég sá fyrir. Ég nenni ekki að hafa of marga flokka, en sumar færslur er ekki hægt að flokka með neinum öðrum og aðrar á ég mjög erfitt með að staðsetja í ákveðinn flokk.

Þess fyrir utan er ég tvístígandi yfir kostum þessarar skipulagningar. Í aðra röndina hef ég gaman af því að sortera þetta svona (gamla möppufýsnin) en á hinn bóginn finnst mér þetta auðvelda hnýsnum aðgengi að mínu lífi. Þetta er sami gamli efinn um hvort maður sé að gefa of mikið færi á sér með svona síðu. Ég reyni að lifa í þeirri trú að ókunnugt fólk hafi ekki áhuga á því að velta sér upp úr blogginu mínu í tilraun til að púsla saman einhverri skakkri mynd af hvernig manneskjan á bak við bloggið er, en maður veit svo sem aldrei.

Viðbót:
Þetta ber reyndar ekki að skilja sem svo að ég vilji ekki að aðrir en mér nákomnir lesi bloggið mitt. Þetta er allt hið flóknasta mál því í rauninni vil ég höfða til sæmilega breiðs lesendahóps og reyni þess vegna að skrifa ekki of sérhæfðar færslur, en um leið finnst mér óþægilegt til þess að hugsa að nú hafi í 4 ár safnast hér saman upplýsingar um mig sem ráða má mismikið í. Lyktar þetta af bloggkrísu?

Engin ummæli: