föstudagur, janúar 26, 2007

Oh mama, how I missed the prairie,
And my Minnesota home


Nú er liðið heilt ár síðan ég fór til Bandaríkjanna. Um þetta leyti í fyrra hafði ég mín fyrstu kynni af þeim sem urðu svo bestu vinir mínir þarna úti. Jennifer hitti ég fyrst, strax á flugvellinum og bjóst þá ekki við að við yrðum miklar vinkonur. Næst kynntist ég Isabelle, Jantien og Hil-May í orientation og loks Elise og Pablo þegar við fórum á vetrarhátíðina í St.Paul. Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða; mér finnst svo stutt síðan ég kvaddi fólkið hérna heima og fór, en eftir því sem maður eldist er eins og tíminn líði hraðar og maður áttar sig á því að eitt ár er ekki sérlega langt tímabil.

Í tilefni af þessu leigði ég myndina A Prairie Home Companion, en við fylgdumst með frumsýningu hennar á sínum tíma. Þetta er einföld og notaleg mynd eftir Robert Altman, og eflaust fyndist mörgum hún leiðinleg þar sem sagan er hæg og tíðindalítil. Ég naut hennar hinsvegar mjög, persónurnar eru þannig að manni líður strax eins og maður hafi alltaf þekkt þær.
Þess fyrir utan hafði ég gaman af henni þar sem hún gerist alfarið í St.Paul og stemningin er mjög í anda miðvesturríkjanna og gömlu-Ameríku. M.a. er lokaatriðið tekið upp á Mickey’s Diner, þar sem Kevin Kline, Meryl Streep, Lily Tomlin og Garrison Keillor sitja við sama borð og við Pablo, Jennifer og Elise borðuðum þetta kvöld:


Það er alltaf svolítið skemmtilegt að sjá staði sem maður sjálfur þekkir í erlendum bíómyndum. T.d. er gaman að því, að eftir að hafa farið í Universal Studios höfum við Önni nokkrum sinnum spottað sett sem að við skoðuðum þar, og eru endurunninn aftur og aftur í mismunandi bíómyndum.

Engin ummæli: