Tíðindamikill dagur
Ég veit að maður á ekki að blogga ítarlega um eigin sjúkdómseinkenni eða líkamlega kvilla, en ég er bara of uppnuminn yfir því að leiðindaþátturinn hennar Rachel Ray skyldi virkilega hafa áhrif á líf mitt til að sleppa því.
Um helgina kveikti ég nefnilega á sjónvarpinu og sá þar Marcia Cross úr Desperate Houswives spjalla við Rachel Ray um mígreni. Hún sagðist hafa þjáðst af höfuðverkjum í 14 ár en aðeins nýlega komist að því að hún væri mígrenisjúklingur.
Sjálf hef ég lengi fundið fyrir leiðinlegum höfuðverkjum, man fyrst eftir að hafa fengið slíkt kast á jólaballi í Hólaskóla þegar ég var 9 ára. Ég hafði stundum velt því fyrir mér hvort ég væri með mígreni en aldrei fundist það líklegt, án þess að athuga það frekar, þar til í dag. Marcia Cross sannfærði mig um að fara á netið og kynna mér mígreni, sem ég hef aldrei gert einhverra hluta vegna. Niðurstaðan er sú að flest bendir til þess að ég sé með mígreni.
Ég útilokaði mígreni allan þennan tíma vegna þess að ég rakti höfuðverkina alltaf til fjarsýninnar, sérstaklega vegna þess að ég sé helmingi verr með hægra auganu og verkirnir eru einmitt bundnir við hægri helming höfuðsins, með æðaslætti á gagnauganu. Auk þess voru verkirnir mun tíðari þegar ég var krakki, þ.e. áður en ég fékk gleraugun við 12 ára aldur því þau drógu mjög úr þeim. Þess vegna taldi ég alltaf að sjónin í mér væri aðalástæða höfuðverkjanna.
Hefði ég bara drattast til að kynna mér mígreni fyrr hefði ég vitað að algengasta tegund þess er yfirleitt “unilateral”, þ.e. einskorðast við annan helming höfuðsins og orsakast m.a. af því að æðar í heila þrengjast og víkka á víxl, sem útskýrir æðasláttinn og mögulegan þrýsting á augað.
Önnur týpísk einkenni eru ljósfælni, sem ég upplifi mjög sterkt þegar ég er með verki, hljóðfælni, sem ég finn stundum fyrir og ógleði og/eða uppköst sem að ég hef orðið óþægilega vör við. Ég man eftir að hafa ælt vegna höfuðverkjar á göngustíg fyrir aftan Nóatún í Mosfellsbæ, í bíl (út um hurðina) með mömmu Hönnu Rutar sem sótti okkur í bíó í 7.bekk, í sundlaugarvask á fjölskylduferðalagi, á götuhorni í Skipholtinu á labbi niður í MR osfrv, osfrv.
Eftir því sem ég les meira og merki við fleiri einkenni á listanum finnst mér sífellt fáránlegra að ég hafi ekki athugað þetta fyrr. Mígrenisjúklingar sækja gjarnan í myrkvuð herbergi í höfuðverkjaköstum, og margir draga úr verkjunum með því að leggja kaldan, rakan þvottapoka á ennið og margt fleira sem ég get kvittað við.
Nú þegar þetta er komið í ljós er mér mjög létt, því nú veit ég allavega ástæðuna fyrir þessum höfuðverkjum og hvers vegna venjuleg verkjalyf gera lítið sem ekkert fyrir mig. Samt breytir þetta í rauninni engu, það er bara gott að skilja þetta. Það má því segja að þessi uppgötvun mín sé fyrri gleðifrétt dagsins. Sú seinni kom þegar Pablo vinur minn frá Hondúras hringdi í mig til að spyrja hvort það væri ekki örugglega í lagi að hann pantaði flugmiða til Íslands.
Beygingarmynd dagsins: handabanda
Engin ummæli:
Skrifa ummæli