fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Í ræktinni

Það er óþolandi þegar gömlu kallarnir sem koma stundum í háskólaræktina taka sig til og slökkva á tónlistinni af því að þeim, greinilega, finnst þetta voðalegur hávaði. Ég hef lent þrisvar í þessu, síðast núna í morgun. Sjálfri finnst mér vera ákveðnar siðareglur varðandi græjurnar þarna, ef ég kem t.d. inn í fullan sal af fólki og stillt er á einhverja ákveðna útvarpsstöð þá lít ég svo á að þögult samkomulag sé um að hlusta á þessa stöð, og skipti því ekki. Ef færri eru í salnum og bróðurhlutinn kannski með i-pod, þá leita ég eftir samþykki þeirra sem næstir mér eru og skipti svo. Þó hafa komið upp undantekningartilfelli þar sem ég frekjast með útvarpið, eins og t.d. ef stillt er á Bylgjuna og þeir spila Eros Ramasotti. Ég einfaldlega neita að láta bjóða mér það að pína mig áfram á brettinu OG þurfa hlusta á Eros Ramasotti um leið.
Þessir kallar, sem eflaust eru háskólaprófessorar, telja sig hinsvegar ekki þurfa að spyrja kóng né prest áður en þeir lækka í botn. Um daginn spurði einn mig reyndar hvort það væri ekki í lagi þótt hann lækkaði aðeins því þetta væri “alveg ærandi”, þegar ég jánkaði því slökkti hann hinsvegar á útvarpinu. Ég hef engan áhuga á að æfa mig í grafarþögn sem er eingöngu rofin þegar kallarnir mása og blása af áreynslunni.

Nú spyrja sig eflaust einhverjir af hverju ég mæti ekki bara með i-podinn minn. Það eru ýmsar ástæður fyrir því; í fyrsta lagi finnst mér hann of stór til að ég nenni því, svo á ég ekkert almennilegt box undir hann sem gott er að hlaupa með og auk þess leiðist mér að vera með þetta í eyrunum á meðan ég er að hamast. Mér líkar ágætlega við að hlusta á útvarpið, svo lengi sem þessir miðaldra kallar skipta sér ekki af því.

Beygingarmynd dagsins:
Vúdútrú

Engin ummæli: