Það er töff að vera með leg
Mín upplifun var sú á þessum aldri að stelpulegir hlutir væru að mestu fyrirlitnir. Stelpur flissa, stelpur grenja, þær klaga, eru aumar og leika sér í mömmó. Allt “það sem stelpur gera” þótti mjög óvirðingarvert og asnalegt. Í bókunum sem ég las (fyrir utan Astrid Lindgren) voru það líka oftast strákarnir sem voru röggsamir og snjallir á meðan stelpurnar voru voða góðar en samt hálf gagnslausar. Þess vegna líkaði mér almennt frekar illa við stelpur og lagði mig sjálf sérstaklega eftir því að gera ekki stelpulega hluti, en vera frekar eins og strákur. Enda uppskar ég því “virðingu” strákanna að því leyti að þeir tóku aldrei af mér húfuna, toguðu ekki í hárið á mér, þeir köstuðu ekki í mig snjóbolta, sögðu mér aldrei að þegja osfrv. Seinna áttaði ég mig samt sem betur fer á því að það er líka hægt að lifa í sátt við kvenlega eiginleika sína og lofa þeim að blómstra, án þess að gefa um leið karlmönnum færi á að valta yfir sig eins og strakar gerðu svo gjarnan við stelpur í grunnskóla.
Halla höfðaði því til mín vegna þess hún var sannkallaður kvenskörungur, eða kannski stelpuskörungur öllu heldur, og mér þótt hún alveg svaka töff þennan sumardag sem við spiluðum fótbolta. Það má því kannski segja að hún hafi verið mér góð kvenfyrirmynd þegar ég var lítil stelpa í Mosfellsbænum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli