mánudagur, apríl 16, 2007

Ef við erum soltin, já ef við erum svöng...

Þegar ég var í Varmárskóla sem barn bauðst nemendum að kaupa þar drykkjar-og jógúrtmiða til að framvísa í hádegishléi. Valið stóð á milli svalamiða, mjólkur-Kókómjólkur-og Skólajógúrtmiða. Mamma lét okkur systkinin yfirleitt kaupa mjólkurmiða, enda voru þeir ódýrastir. Svalamiðar komu ekki til greina, því Svali var svo sykraður, en stundum fékk ég þó að kaupa mér Kókómjólk. Skólajógúrtmiðarnir voru dýrastir af þeim öllum, mig minnir að þeir hafi kostað hátt í þúsund krónur kartonið. Þess vegna var algjört spari þegar manni leyfðist stöku sinnum að kaupa svoleiðis. Bláa jógúrtin með ferskjunum var alltaf í mestu uppáhaldi hjá mér og er enn. Þessi minning er svo vandlega greypt í hugann að ég kaupi bláa skólajógúrt ennþá svolítið sem spari, t.d. sem nesti þegar ég fer í ferðalag. Þótt hún sé ekkert betri eða dýrari en önnur jógúrt eimir samt eftir af þeirri tilfinningu að Skólajógúrt sé munaðarvara.

Engin ummæli: