Tóma tunnan
Ég held því fram að ef ekki væri fyrir útþenslu moggabloggsins hefði klámliðinu aldrei verið úthýst þarna um daginn. Að sama skapi hefði Uwe E. Reinhardt ekki séð sig knúinn til að biðjast afsökunar í dag, vegna viðbragða búralegra Íslendinga sem skilja ekki að satíran er ekki á okkar kostnað. Fólk fer bókstaflega hamförum í þessu bloggsamfélagi og tekur sjálft sig svo alvarlega að það hálfa væri nóg. Mér fannst spaugilegt þegar Kazakstanar fóru á límingunum yfir Borat og áttuðu sig ekki á að Bandaríkin voru hið raunverulega skotmark, en núna bregðast Íslenskir moggabloggarar við með sömu viðkvæmni, og jafnvel vissum hroka gagnvart Íran.
Fyrir utan það að þessi grein er skrifuð fyrir háskólavefrit og ber að taka með þeim fyrirvara; það er ekki eins og þetta sé leiðari NY Times. Það væri því óskandi að þessir bloggarar gætu slakað aðeins á, áður en þeir rjúka til og senda hótunarbréf til Bandaríkjanna, og bloggað svo um eitthvað sem þeim sjálfum dettur í hug.
Beygingarmynd dagsins: Hrumustum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli