miðvikudagur, apríl 18, 2007

Sumarið nálgast

Þar sem ég á nú að vera að vinna að leiðinlegasta verkefni allra tíma þykir mér mjög aðkallandi að setja saman ferðaáætlun fyrir heimsókn Pablo vinar míns og Lasheenu vinkonu hans. Því miður stoppa þau afar stutt, frá 23.-26.maí, þegar þau fljúga áfram til meginlandsins í Evrópureisu. Þessa 3 daga sem þau eru hér ætla ég hinsvegar að nýta vel til að gera Ísland eftirminnilegt.
Planið er gróflega eins og hér segir:


Dagur 1 – Miðvikudagur

-Sæki þau í Leifsstöð kl. 6:30
-Morgunmatur á Freyjugötu og þau koma sér fyrir
-Rölt um Reykjavík, m.a. upp í Hallgrímskirkjuturn, miðbæinn, pulsa á Bæjarins beztu, harðfiskur í Sægreifanum. Mögulega kíkja á Sögusafnið í Perlunni og Árbæjarsafn (uppáhalds safnið mitt).
-Um kvöldið ætla ég að elda fyrir þau humar (sem Pablo hefur aldrei smakkað) og súkkulaðiköku.
-Pæling að fara kannski í kvöldtúr í Laugardalslaugina og flatmaga í heitum pottum fyrir svefninn.


Dagur 2 – Fimmtudagur

-Keyrum upp í Mosó, með viðkomu í Mosfellsbakaríi og borðum svo brunch með fjölskyldunni minni í Akurholtinu; sýna honum hvar ég ólst upp.
-Golden Circle; gefum okkur góðan tíma á Þingvöllum, Gullfossi og Geysi. Mig langar líka mikið að kíkja á Geysisstofu, þar er víst nokkuð sniðugt safn núna með norðurljósa, -jarðskjálfta og eldfjallasýningu.
-Ef tími gefst til langar mig að kíkja upp í Reykjadal eftir þetta og sjá hvort við getum ekki skolað af okkur ferðarykið í heitri laug. Af Ölkelduhálsi er víst líka fallegt útsýni.
-Um kvöldið förum við í Hvamm, jörð foreldra minna rétt fyrir utan Hellu, grillum lambakjöt og slöppum af.


Dagur 3 – Föstudagur

-Hleypi þeim mögulega á hestbak, þó ekki viss.
-Frá Hvammi keyrum við eftir Suðurströndinni og komum við á þessum helstu stöðum; Seljalandsfoss, Skógar, Reynisfjara. Allt þetta svæði austur undir Eyjafjöllum er ótrúlega fallegt, með fjalla –og jöklasýn og mjög túristavænt.
-Skyldustopp í Seljavallalaug, skemmtilegasta laug landsins.
-Keyrt aftur í bæinn, ekki ólíklegt að við endum á Eldsmiðjupizzu þetta kvöldið.
-Hugsanlega stuttur rúntur niður Laugaveginn ef tími og orka leyfir.


Dagur 4 – Laugadagur

-Keyri þau eldsnemma í Leifsstöð


Auðvitað eru fjölmargir fleiri staðir sem mér finnst þau ættu að sjá. Langar t.d. mikið að ganga með þeim upp a Glym, fara að Jökulsárlóni etc. Því miður gefst ekki tími til þess í þetta skiptið. Ég ræð mér varla fyrir spenningi, enda veit ég fátt skemmtilegra en að ferðast með útlendingum um landið mitt (nema ef vera skyldi að vera sjálf útlendingur í annarra löndum). Auk þess er Pablo svo frábær og mér þykir óskaplega vænt um hann. Ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar, sérstaklega ef þið vitið um einhverja góða staði sem mér hefur ekki komið til hugar.

Engin ummæli: