sunnudagur, apríl 22, 2007

Að kunna gott að meta

Afi minn og amma, pabba megin, fagna Gullbrúðkaupi sínu um helgina. Af því tilefni brunaði ég austur á Hellu í kvöldmat til þeirra í gærkvöldi, og hitti þar ættingja sem ég sé sárasjaldan. Sú ímynd loðir gjarnan við svona ættamót að þau séu algjör kvöl og pína, en gærkvöldið var hinsvegar alveg stórskemmtilegt enda eru skyldmenni mín hið besta fólk. Þarna voru rifjaðar upp ýmsar sögur af pabba og bræðrum hans fjórum, en þeir voru víst ansi fyrirferðamiklir, ef svo má að orði komast, þegar þeir voru yngri.

Einnig fór fram n.k. húslestur, þegar Sturla las upphátt fyrir okkur úr gestabókinni, sem nær aftur til ársins 1988, enda stór og þykk. Mín fjölskylda fyllir ófáar síður enda vorum við alltaf dugleg að koma í heimsókn, en þykir líka öllum gaman að hlusta á sjálf okkur tala. Við skráðum auk þess alltaf mjög samviskusamlega niður hvaða hestar og hundar voru með í það og það skiptið, svo gestabókin er ágætis heimild um dýrahald okkar.

Mamma hefur það gjarnan fyrir sið að sjóða saman eins og eina limru í gestabækur við sérstök tækifæri. Í þetta skiptið fékk hún mig til að aðstoða sig þar sem hún var eitthvað andlaus, og létum við okkur hverfa inn í bakherbergi í nokkrar mínútur. Afraksturinn var þessi:

Nú fögnum við fimmtíu árum,
og fáeinum stálgráum hárum;
Í samlífi hjóna með gulli og glans,
sem glaðbeittum skaranum komu til manns,
vannst sigur með gleðinnar tárum.

Stutt og laggott, hefði getað verið þjálla en inntakið er ágætt og í takt við tilefnið. Amma og afi hafa nú verið gift í 50 ár og eru enn voðalega sæl hvort með annað. Þau hafa alið upp átta börn, en þó misst einn son og einn dótturson. Sjálfsagt á eftir að verða mikil sprenging í fjölda barnabarnabarna á næstu árum og þau munu skilja eftir sig heilan sæg af efnilegum afkomendum. Því miður hef ég verið óskaplega léleg að rækta sambandið við þau undanfarin 5 ár eða svo. Þegar ég kvaddi afa minn í gærkvöldi faðmaði hann mig að sér og sagði “Mér þykir svo óskaplega vænt um þig”. Þá hlýnaði mér allri að innan. Ég ætla að vera duglegri að heimsækja ömmu og afa á Hellu héðan af.

Engin ummæli: