fimmtudagur, júlí 19, 2007

Facebook

Ég hef verið svolítið tvístígandi yfir þróuninni á Facebook undanfarið. Þessi síða er að vera mjög vinsæl meðal Íslendinga núna, að því er virðist. Þegar ég byrjaði með Facebook var hún bara opin fyrir háskólanema með bandarískt, kanadískt eða breskt háskólanetfang, og reyndar voru bara nokkrir mánuðir síðan opnað hafði verið fyrir aðgang fyrir flesta aðra en ivy legue háskólana. Ég hafði fengið mér MySpace síðu áður en ég fór til BNA en fílaði það engan veginn og hef alltaf ætlað að eyða prófílnum þar. (Á einhvern fáránlegan hátt hef ég samt ekki kunnað við það, eins og það muni móðga “vini” mína þar, sem ég hef samt aldrei samskipti við í gegnum þennan miðil)

Allavega. Núna þegar allir eru byrjaðir að fá sér Facebook á Íslandi líður mér svolítið eins og þegar Harry Potter kom fyrst út á íslensku og æðið byrjaði hér. Þá hafði ég verið með nefið ofan í þessum bókum í rúmt ár og var svolítið pirruð þegar ég gat ekki lengur ímyndað mér að ég hefði þær “útaf fyrir mig”. Nú á ég í svipaðri dílemmu með Facebook.

Annað sem truflaði mig líka var að það ruglaði systeminu hjá mér þegar íslenskir vinir byrjuðu að hrúgast inn á Facebook. Þetta gæti verið einn angi af möppufetishinu mínu, því mér fannst það alveg stórgóð skipulagning að þar væru bara útlensku vinir mínir og ekkert verið að flækja málin. Fyrir mér er líka ekki kappsatriði að eiga sem flesta “vini” í netheimum og þoli þess vegna ekki þegar algjörlega ókunnugt fólk óskar eftir að verða vinir mínir án þess að hafa nokkurn tíma átt samskipti við mig fram að því. (Það hefur reyndar verið lítið um það á Facebook, en þeim mun meira á MySpace)

Sem betur fer gerir Facebook þetta auðveldara fyrir mig með því að hafa ýmis konar stillingar og með því að skipta fólki upp í “network”. Ég er því á góðri leið með að komast yfir þennan mótþróa, enda get ég varla kvartað yfir að bjóðast fleiri tækifæri til að hafa samskipti við allt þetta stórfína fólk sem ég þekki.
Annars elska ég Facebook, mér finnst það alveg frábært dæmi og....ahemm...mæli með því.

Engin ummæli: