sunnudagur, október 07, 2007

Árdags í ljóma

Veðrið í dag var svo fallegt. Þegar svona dagar koma eftir gegndarlausa rigningu þá er manni lífsnauðsynlegt að nota þá vel. Bara rétt eins og maður þarf að sofa eftir erfiðan vinnudag og borða eftir átök í ræktinni. Sem betur var ég ekki að vinna í dag og gafst því færi á að njóta íslenska haustsins á Þingvöllum. Þangað þremenntum við amma og Anna, auk um það bil helmings þjóðarinnar. Ég fór þangað hvorki á lýðveldis né kristnihátíðinni, og hef því aldrei séð svona mikið af fólki þarna áður. En þrátt fyrir það var kyrrðin ekki langt undan. Eftir að hafa gengið Almannagjá fórum við niður Skógargötur og borðuðum þar nesti í mosanum í fullkomnu næði. Við enduðum svo við vatnið í kvöldsólinn og mikið er það alltaf fallegt.
Ég var tveggja ára þegar ég fór á fyrsta skipti á Þingvelli
og það er mér mjög minnistætt. Þ.e.a.s ég á svo sem ekki heildstæða minningu frá upphafi til enda, en upplifunin þegar ég gekk niður Almannagjá var svo sterk að ég man hana ennþá. Mér fannst þetta svo merkilegur staður og fannst ég svo lítil (sem ég var náttúrulega) undir hamraveggjunum. Ég á ekki margar sterkar minningar frá þriðja aldursárinu svo þessi er þeim mun merkilegri fyrir vikið.


En við áttum sem sagt góðan dag á Þingvöllum í dag. Myndirnar koma því að sjálfsögðu aldrei fyllilega til skila, en ég er samt alltaf haldinn þessari þráhyggju að reyna að festa svona daga á filmu.

Engin ummæli: