miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Að deyja úr gleði

Í dag eru liðin 100 ár frá fæðingardegi Astrid Lindgren. Hún á sér þúsundir aðdáanda um allan heim, en þó vil ég gjarnan líta á sjálfa mig sem einn þann stærsta. Ég hef örugglega áður sagt frá því að mamma lofaði mér því þegar ég var lítil að ég skyldi einhvern tíma fá að fara til Svíþjóðar og hitta Astrid Lindgren. Þetta tók ég mjög alvarlega og fór oft í gegnum það í huganum hvað ég ætti nú að segja við hana Astrid þegar við loksins hittumst. Foreldrar mínir hafa alltaf alið mig upp í þeirri trú að mér sé ekkert ómögulegt og allir mínir draumar getir ræst svo lengi sem ég vinni markvisst að þeim, svo mér þótti aldrei nema raunhæft að við Astrid myndum setjast niður yfir tebolla einn fagran sumardag í Vimmerby. Það fékk því raunverulega á mig þegar ég heyrði af því þegar ég mætti í skólann þann 28.janúar 2002 að Astrid Lindgren væri dáin.

Ætli uppáhalds karakterinn minn úr safni Astrid Lindgren sé ekki Ronja Ræningjadóttir. Mér þótti hún lifa afar eftirsóknarverðu lífi og langaði fátt meira en að gera eins og hún, lifa ein í helli úti í skógi og veiða mér til matar með dýrmætustu eigninni, hnífnum mínum. Svo er Lína auðvitað snilldarkarakter, og eins Emil, en alltaf skal hann vera jafn misskilinn greyið og jafnan kallaður óknyttastrákur. Ég er mótfallin því, Emil er alls enginn óknyttastrákur, hann er uppátækjasamur og sér oftast ekki fyrir afleiðingar gjörða sinna, en allt sem hann tekur sér fyrir hendur er í góðri trú og vegna þess að hann vill vel, ekki vegna þess að hann sé hrekkjóttur.

Sögurnar um Línu og Emil eru líklega þær frægustu eftir Astrid, en voru þó aldrei í sérstöku uppáhaldi hjá mér þótt mér þætti þær skemmtilegar. Ég hélt mest upp á Ronju og Saltkráku, svo las ég líka margoft söguna um Rasmus sem fór á flakk, og eins bækurnar um leynilögreglumanninn Karl Blómkvist. Þaðan lærði ég ýmis trix sem ég taldi að gætu nýst mér á lífsleiðinni, eins og t.d. að ná lykli úr læstri hurð öfugu megin frá. Þegar ég bjó á Hólum í Hjaltadal komu mjólkurvörurnar sendar frá Sauðárkróki og voru skildar eftir í kistu utan við Bændaskólann. Þaðan drógum við Sturla þær heim á snjóþotum, og þá sá ég fyrir mér að ég væri eins og eitt af börnunum í Ólátagarði. Ef bara ég hefði átt risherbergi með stóru tré utan við gluggann, sem ég gæti klifrað niður. Mig langaði líka alltaf að fara á krabbaveiðar um miðja nótt eins og þau gerðu. Madditt og Lotta voru líka frábærar og ég las þær margoft, en mér fannst Bróðir minn Ljónshjarta eiginlega einum of átakanleg og las hana því ekki aftur fyrr en fyrir nokkrum árum.

Jæja. Mér þykir vænt um Astrid Lindgren og sögurnar sem hún gaf mér. Hún er mér mikil fyrirmynd, enda gáfuð, fyndin og sterk kona, og svolítill uppreisnarseggur í sér. Og mér finnst skemmtileg sagan af henni sem segir að innt eftir vonbrigðum yfir að hafa ekki fengið Nóbelsverðlaunin hafi hún svarað að það væri líklega eins gott, því hún hefði einfaldlega dáið úr gleði.

Engin ummæli: