miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Forbrydelsen...

...er tvímælalaust uppáhalds þátturinn minn í sjónvarpinu um þessar mundir og sá eini sem ég vil alls ekki missa af. Það virðist vera mikið blómaskeið í danskri dagskrárgerð þessi misserin, þeir drita út úr sér hverri eðalþáttaröðinni á fætur annarri. Svo er ég ánægð með að fá Glæpinn inn á sunnudagskvöldum, því þau höfðu ekki staðið undir sér sem letileg sjónvarpskvöld síðan Dexter og Boston Legal hættu í vor. Ég er ekki frá því að Glæpurinn skáki þeim báðum, enda skilur hver þáttur við mig æsispennta eftir þeim næsta. Karakterlagerinn er líka góður; aðallögreglukonan er mikill töffari, en þó finnst mér Ann Elenora Jørgensen sem leikur mömmuna sýna bestu tilþrifin, sorgin í augunum á henni nístir mig alveg inn að hjarta svo mér finnst nánast óþægilegt að horfa á hana.
Fyrst hélt ég að þetta ætti ekki að vera nema nema í nokkrum hlutum, en í raun er þetta 20 þátta sería og þegar búið að framleiða þá næstu. Ekki veit ég hvernig þeir ætla að halda áfram með fléttuna svo lengi, en bíð spennt eftir að sjá meira. Áfram Danir.

Engin ummæli: