föstudagur, nóvember 30, 2007

Skammdegið

Hvort sem það er einhver undirflokkur af þunglyndi eða ekki, þá á ég voðalega erfitt með að koma mér snemma á fætur í þessu myrkri. Það er kolniðamyrkur þegar vekjaraklukkan mín hringir kl.7:30 og þótt ég snúsi í 40 mínútur heldur áfram að vera alveg jafndimmt. Á meðan ég ligg í rúminu finnst mér eitthvað ómanneskjulegt við að fara fram úr við þessar aðstæður, ekki síst núna í morgun þegar ég heyrði í svefnrofunum hvernig húsið nötraði í rokinu.
Til að auðvelda mér að komast af stað hef ég vanið mig á eitt og annað sem mér þykir gera daginn fýsilegri. Ég get mælt með þessum aðferðum fyrir þá sem þjást af skammdegisþyngslum:

  1. Hafa hlýtt inni á baði. Baðherbergið er fyrsti áfangi dagsins og ömurlegt að vera stífur í öxlum og kaldur á tám að krókna þar inni. Því gæti ég þess að hafa alltaf gluggann lokaðan og vel skrúfað upp í ofninum yfir nóttina.
  2. Ekki kveikja öll ljós í einu. Í öllu þessu myrkri þarf smá aðlögun áður en ég get verið í skæru ljósi án þess að verða pirruð. Yfirleitt kveiki ég fyrst á litlu ljósunum við spegilinn á meðan ég tannbursta mig og fer á klósettið, eftir því hef ég vanist ljósinu og get þá kveikt lofljósið þegar ég fer í sturtuna.
  3. Mild lýsing. Mér finnst ekki þægilegt að borða morgunmat í flóðlýsingu þegar það er kolniðamyrkur úti. Því reyni ég eftir bestu getu að hafa notalega birtu, kveikja á lömpum frekar en loftljósum, og svo ljósaseríum eftir 1.desember. Jólaljósin (einnig þekkt sem skammdegisljós) redda þessu alveg.
  4. Kerti. Ég reyni að nýta öll tækifæri til að kveikja á kertum, hvort sem er kvölds eða morgna. Ekki síst á morgnana, loginn er bæði fallegur og róandi og hjálpar mér að fara út í daginn með jákvæðum huga.
  5. Taka því rólega. Ég þoli ekki að vakna í stressi ef ég þarf að mæta eitthvað og þurfa að hendast út í myrkrið og kuldann ennþá með stírurnar í augnum. Þá vil ég heldur vakna aðeins fyrr og hafa a.m.k. 15 mínútur til að borða morgunmat og lesa blaðið áður en ég fer út.

Þannig tekst mér að gera skammdegið notalegt frekar en þunglyndislegt. Samt finn ég það áþreifanlega hvað ég er miklu orkuríkari á sumrin.

Engin ummæli: