þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Veðramót

Við amma drifum okkur saman á Veðramót í gær, þar sem nú eru síðustu sýningar (og ég átti 2 fyrir 1 miða sem fylgdi með Mogganum - alltaf að græða).
Skemmst er frá því að segja að myndin kom mér skemmtilega á óvart. Nú er töluvert liðið síðan hún var frumsýnd og því aðeins farið að hægjast á umræðunni, en það var auðvitað mikið látið með hana framan af. Í millitíðinni heyrði ég af sumum sem fóru á hana með miklar væntingar en urðu fyrir vonbrigðum þar sem myndin reyndist bara góð en ekki frábær. Ég var því búin að trappa mínar væntingar niður og varð því þeim mun ánægðari með það sem beið mín. Bæði hafði ég mjög gaman af myndinni, fannst hún vel leikin (sú sem lék mömmu Tinnu Hrafnsdóttur rak samt lestina) og að mestu leyti laus við vandræðaganginn sem manni finnst oft einkenna íslenskar myndir. Að vísu tel ég að sú algenga umkvörtun stafi að miklu leyti af því að íslenskar kvikmyndir standa manni of nærri, held við höfum ekki eins góða tilfinningu fyrir kjánalegum og ósannfærandi samtölum í erlendum bíómyndum, en það þýðir ekki að þau séu ekki þar.
Nóg um það. Veðramót er skemmtileg mynd. Karakter Dísu er mjög áhugaverður. Söguþráðurinn var þess eðlis að ég hugleiddi hann eftir að myndinni lauk. Tónlistin flott. Ég (22) og amma (79) vorum báðar sáttar. Á skalanum góð - frábær fær hún einkunnina mjög góð.

Engin ummæli: