mánudagur, nóvember 26, 2007

Tabula rasa

Tölvan mín var orðin ansi hæg stundum greyið og byrjuð að frjósa ef ég lét hana puða svolítið. Ég fór því með hana í hreinsun til útskriftarnema í rafmagns-og tölvunarverkfræði og lét þá strauja hana fyrir mig og enduruppsetja stýrikerfið. Hún var stúdentsgjöf frá foreldrunum á sínum tíma og hefur verið mér afar kær, en undanfarið ár hef ég haft áhyggjur af því að hún gæti hrunið, og þó ekki hafi ræst úr því, heldur tölvan reynst algjör þjarkur, þótti mér tímabært að gefa henni smá andlitslyftingu. Hún kom aftur til mín hrein og pússuð að utan sem innan, svo að undanskildum litla límmiðanum sem ég setti fyrir löngu á lyklaborðið ber hún þess hvergi merki að hafa nokkurn tíma verið í minni eigu. Ég fékk hana í hendurnar innantóma og karakterlausa. Eins og hún hafi lent í vitsugunum úr Harry Potter. Því hef ég verið að dunda mér við að glæða hana lífi að nýju, gera hana kunnuglega aftur. Sem er fínt. Gaman að geta byrjað upp á nýtt með hreinan skjöld og hressari tölvu.

Engin ummæli: