sunnudagur, nóvember 04, 2007

Einu sinni var

Á tímabili var ég mjög dugleg við að halda dagbók, með smá hléum. Skriftirnar hættu svo endanlega stuttu áður en við Önni byrjuðum saman, því miður, því þetta eru ótrúlega skemmtilegar heimildir um sjálfa mig. Þarna get ég rifjað upp hugsanir og tilfinningar sem væru mér annars löngu gleymdar, og þegar ég dett niður í dagbókalestur, sem gerist á nokkurra mánaða fresti, þá kemur gamla-ég núverandi-mér oft á óvart. Bæði þegar ég þarf að horfast í augu við hvað ég var kjánaleg stundum, en ekki síður vegna þess að gamla-ég var oft bráðsniðug og fyndin, þó ég segi sjálf frá. Núna um helgina greip ég af handahófi eina dagbók úr bunkanum, og reyndist hún vera skrifuð af 15 ára gamalli Unu, nýbúni með grunnskóla og að taka fyrstu skrefin í menntaskóla. Mig langar að birta hérna nokkra valda kafla sem lýsa stemningunni:

-------------------------------------------------------

Miðvikudagur 23.08.2000 (Daginn fyrir skólasetningu)
"Ég vona að ég lendi í skemmtilegum bekk. Með Braga. Ég verð að viðurkenna (skömmustulega) að ég hef haft áhyggjur af að lenda bara með eintómum erkinördum, af því þetta er MR og allt það. En það er heimskulegt, og eiginlega soldið fordómafullt. Enda er mér ekkert mjög alvara með þessu. Bara pínu. Anna greyið, ha!!! Hún er að fara aftur í grunnskóla. Mikið er ég fegin að sama bíður mín ekki."

Fimmtudagur 25.08.2000 kl.18:57
"Mér líst bara ágætlega á bekkinn minn. Samt eru bara 4 strákar í honum, með Braga. Svona í fljótu bragði get ég ekki beint séð neina manneskju sem gæti orðið vinur minn. Ekki þannig. Svo voru allir eitthvað svo töff. Eða sumir. Tvær stelpur þarna voru greinilega að reyna að vera eitthvað flippaðar með hárið litað rautt og í skrýtnum fötum. Þær eru samt örugglega fínar. Mér leið allt í einu eins og ég væri svo barnaleg í útliti og svona miðað við þetta fólk. Í fyrsta skipti sem mér líður þannig í hópi jafnaldra eða ári eldri.
Stelpan sem sat við hliðina á mér var mjög spes. Hún talaði eins og hún væri 40 og í fréttunum eða eitthvað. Ég heyrði ekki betur en hún þekkti nöfnin á höfundum allra námsbókanna. Þegar einn kennarinn sagði að það væru til 2 útgáfur af einhverri námsbók kom hún sinni skoðun á framfæri:
“Já, ég hef trú á að seinna heftið sé betra”
Kennarinn svona hikaði aðeins og svo:
“Já, ehhh, ég hef nú aldrei gert upp á milli þeirra....?”
Svo í lok tímans kynntum við okkur fyrir henni við Bragi, hún virtist ekki vilja gefa upp nafnið sitt en þegar við sögðumst vera Mosfellingar fannst henni það alveg “jiiii en frábært. Ég var einmitt að vinna þar á leikskólanum. Þið eruð þá ’84 módel?”
-(Já en þú, er ég í vitlausum bekk eða eitthvað?)
Hún heldur áfram:
“Já maðurinn minn býr einmitt þar,” (maðurinn?!) “þið þekkið hann sjálfsagt ekki, hann er ’73 módel.”
Við Bragi vorum örugglega bæði að hugsa “What the fuck, hvað er manneskjan gömul?”
Þetta var eitthvað skrýtið.
"

Föstudagur 26.08.2000 kl.21:04
"Jæja ég var í skólanum í dag og það var alveg brjálað stuð og magnað geim. Eða eitthvað. Það reddaðist alveg þó ég væri ekki með bækurnar, ég fékk stundum að sjá hjá Braga og svona. Við Bragi skiptum um sæti, nú sitjum við aftast í staðinn fyrir fremst og við hliðina á stelpu sem heitir Margrét og er ein úr Austurbæjarskóla. Ég kann vel við hana, og hún virðist vilja kynnast mér og okkur. Gaf sig nokkrum sinnum á tal við okkur að fyrra bragði og ég held hún hafi stundum verið að hlusta á okkur Braga tala saman, og virtist hafa gaman af. Ég er ekki viss um hvort hún tók eftir að Bragi tók þrisvar í nefið undir borði. Hann þarf alltaf að vera svo sérstakur eitthvað.
Mér líst bara vel á skólann. Ég er að bíða eftir að allt félagslífið byrji, sjá hvernig þetta verður með Herranótt og svona. Þá kynnist ég líka vonandi fólki úr öðrum bekkjum. Raunar er ég farin að kvíða svolítið fyrir busuninni, ég vildi að þeir gætu bara lokið þessu af því þá fyrst er skólinn byrjaður.
Ein ástæðan fyrir því að ég kvíði fyrir er sú að mig skortir sjálfstraust vegna skorts á fötum. Maður verður að klæðast fötum sem maður virkilega fílar, annars minnkar sjálfstraustið svo. Fötin skapa manninn.
Allar stelpurnar í bekknum mínum (flestar allavega) eru eitthvað svo grúví og flott klæddar. Svo bætir það ekki beint að ég byrja í leikfimi í fyrramálið. Fyrir utan að ég á engin leikfimiföt þá er ég með bumbu, loðin á löppunum og algjörlega þollaus. Leikfimitímar verða algjört helvíti í vetur. Ég trúi ekki samt að ég kvíði virkilega fyrir, það er svo heimskulegt. Ég er bara fegin að það er ekkert sund. Þungu fargi af mér létt. Það er sko sjálfstraustssviptir í mínu tilfelli! En nú reyni ég að sofna.
"

Miðvikudagur 06.09.2000 kl.20:16
Skólinn. Mjög skyndilega í gær stökk ég úr að vera himinlifandi og spennt yfir í að vera döpur og vonsvikin. Bekkurinn minn er ekki nógu góður. Vegna strákaleysis skapast mikið ójafnvægi, auk þess sem ég vil auðvitað hafa stráka. Svo er það Hagaskólahópurinn sem heldur sig saman og einhvern veginn er engin bekkjarstemning að skapast. Mamma er farin að gefa í skyn að ég hefði átt að fara í annan skóla. (verzló helst.) Ég er soldið pirruð út af því, hún er ekki beint að hjálpa mér. Heldur ekki þegar hún er svo væn að minna mig á að ég geti alltaf skipt um skóla! Ég er ekkert að gefast upp, rétt nýbyrjuð!


Föstudagur 09.09.2000 kl.16:57
Ég er aftur komin í jákvæðnikast yfir skólanum. Í gær var semsagt kynningin á félagslífinu fyrir 3.bekkingar og það var ógeðslega gaman. Fannst mér. Svo var líka bara nokkuð gaman í skólanum í dag. Ég var í svo góðu og jákvæðu skapi og bekkurinn virtist vera það líka.

-------------------------------------------------------

Töluverðar geðsveiflur í gangi þarna. Mér finnst sérstakt að hugsa til þess núna að ég hafi bara verið 15 ára gömul fyrsta árið mitt í MR. Það var ekkert lítið, þroskaferlið sem rúllaði af stað þessa fyrstu daga í skólanum og varði næstu misserin. Mér þykir vænt um að geta rifjað það upp svart á hvítu. Kannski munu þessar dagbækur líka nýtast mér sem sjálfshjálparbækur þegar ég eignast minn eigin, ringlaða ungling síðar meir.

Engin ummæli: