mánudagur, desember 31, 2007

Annáll 2007

Fyrstu bloggárin mín skrifaði ég n.k. áramótauppgjör en hef ekki gert það síðan 2003/2004. Síðan hef ég komist að því að það er nokkuð praktískt að halda smá annál til haga til að auðvelda upprifjun síðarmeir. Ég ætla því að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í janúar 2004:


Besti árangurinn

Að fá starfið sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Að vera valin úr 120 manna hópi eftir 3 klst hæfnispróf og viðtal var búst fyrir egóið. Og ekki spillti fyrir að Önni var ráðinn líka. Hefði verið verra ef annað okkar hefði komist í gegn en ekki hitt, jafnvel þótt við tækjumst í hendur upp á að láta slíkt ekki spilla sambandinu þegar við sóttum bæði um starfið.

Áskorun ársins

Starfið á Mogganum. Það vandist þegar leið á sumarið, en framan af var ég alltaf smá stressuð þegar ég lagði af stað í vinnuna og velti fyrir mér hverju mér yrði nú úthlutað að skrifa um í dag. Að setja sig inn í nýtt verkefni á hverjum degi, sem maður hefur í mörgum tilfellum enga þekkingu á þegar hafist er handa og láta svo prenta útkomuna í 50 þúsund eintökum í lok vinnudagsins og dreifa um allt land er nokkuð krefjandi. En mjög skemmtilegt. Ekki síst þegar maður sannar fyrir sjálfum sér að maður getur alveg gert þetta þrátt fyrir efasemdir um eigið ágæti, og það nokkuð vel.


Innkaup ársins

Við Önni keyptum okkur bæði Volvo og gasgrill á árinu sem er að líða, hahaha. Rosalega finnst mér ég hljóma fullorðin svona þegar ég skeyti þessu tvennu saman.

Tímamót ársins
Áramótin? Nei. Síðasta Harry Potter bókin? Já. Bless Harry og takk fyrir allt.

Mestu erfiðleikarnir
Í október fékk afi heilatappa í annað sinn og var eins og persónuleikinn fjaraði út með málinu. Hann var lagður inn á krabbameinsdeild og fékk í kjölfarið lungnabólgu sem virtist ætla að verða hans síðasta enda ráðlögðu læknar okkur að flytja hann á líknardeild. Það er erfitt að eiga að taka ákvörðun fyrir annars hönd um hvort það sé kominn tími til að deyja, en við vildum leyfa honum að berjast aðeins lengur, því hann hefur lagt það í vana sinn að standa af sér slæmar spár lækna sem sannast best á því að hann lifir enn með krabbameininu sem kom upp árið 2003 og átti að draga hann til dauða innan árs. Þetta reyndist rétt ákvörðun því blóðtappinn gekk til baka og afi kom aftur til meðvitundar, glottandi og hress. Ég hef aldrei þekkt seigari mann og í kvöld mun ég fagna áramótunum með honum.

Pirringur ársins
Umræður á moggablogginu. Ég á að vita betur en að eyða tíma í þetta, en stundum byrja ég hreinlega að svitna og verða heit í framan af pirringi yfir hvað sumt fólk er heimskt og húmorslaust og asnalegt og grrrrrrrrrrrrr

Verstu vonbrigðin
Ég varð fyrir vonbrigðum með sjálfa mig þegar mér tókst ekki að ljúka BA prófinu á tilætluðum tíma. Eitthvað andleysi gerði það að verkum að ég var algjörlega tóm gagnvart ritgerðarefnum og fann lítinn hvata til að koma mér að verki. Svo leið mars og svo leið apríl og aldrei byrjaði ég á ritgerðinni. Niðurstaðan var sú að útskriftin frestaðist um eitt misseri vegna þessara skitnu 5 eininga. Ojæja.

Mesta lánið í óláninu
Að fresta BA prófi um eitt misseri. Já hefði ég klárað á réttum tíma var planið að ráða sig í fulla vinnu næsta árið og safna pening fyrir framhaldsnámi. Það stendur enn til, en þar sem ég hef enn hvergi skuldbundið mig gaf töfin mér færi á að skella mér í bakpokaferðalag fyrri part árs 2008, sem ég hefði annars líklega ekki gert.


Óæskilegast á árinu

Óhófleg neysla ostapopps. Transfitusýrur eður ei, this has got to stop.

Skemmtilegast á árinu 2007
Ferðalögin, innanlands sem utan. Mér tókst að fara tvisvar vestur á firði, í annað skiptið á Barðaströnd og hitt í Djúpið. Sýndi Pablo vini mínum grobbin helstu náttúruperlur suðurstrandarinnar. Fór fjallabak nyrðra og inn í Þjórsárdal. Átti frábæra daga í steikjandi sól í Borgarfirði og uppgötvaði að Hreðavatn er meira en bara skálinn sem kenndur er við það. Jafnframt fór ég til 6 landa; Hollands, Danmerkur og Svíþjóðar, Ítalíu, Slóveníu og Króatíu þar sem við Önni áttum frábæra dekurviku í september.


Niðurstaða?

Árið 2007 leið ótrúlega hratt og með miklum ágætum. Það næsta er að einhverju leyti ár óvissunnar enn sem komið er. Í janúar sný ég ekki aftur í skóla eins og alltaf heldur fer bara að vinna, það verður skrýtið. Í mars-júní ferðast ég um ókunna heimsálfu. Þá tekur sumarstarfið líklega við en eftir það er framtíðin óskrifað blað. Ég hef ekki ákveðið hvað ég tek mér fyrir hendur með haustinu en eigum við ekki bara að segja að að verði eitthvað magnað. Gleðilegt nýtt ár!

Engin ummæli: