föstudagur, desember 28, 2007

The Golden Compass
Ég fór í bíó að sjá jólamyndina The Golden Compass, sem ég hafði auðvitað beðið spennt eftir því hún er byggð á fyrstu bókinni í His Dark Materials, sem er umfjöllunarefni BA ritgerðarinnar minnar. (Bókin heitir reyndar upprunalega Northern Lights, en The Golden Compass er bandaríski titillinn). Myndin er ágæt að mörgu leyti en því miður varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum sem aðdáandi bókanna. Í samanburði finnst mér t.d. Harry Potter myndirnar mun betur lukkaðar þegar kemur að því að fanga upprunalegt andrúmsloft sögunnar (að þeirri fyrstu undanskilinni), þótt þær standi líka bókunum að baki.

Helst er ég ánægð með ytra byrði GC myndarinnar, hún lúkkar vel og eins finnst mér vel valið í hlutverk. Sérstaklega tókst þeim vel til að finna Dakota Blue Richards sem Lyru, því hún smellur í hlutverkið útlitslega og er líka mun betri leikari en t.d. Daniel Radcliff sem Harry Potter. Nicole Kidman er líka fullkomin Mrs. Coulter, rotin inn að beini þrátt fyrir seiðandi útlit og eins Sam Elliot sem Lee Scoresby "from the land of Texas". Ísbirnirnir eru frekar tilkomumiklir þrátt fyrir að talsetning Ian McKellen sé ekki nema í meðallagi vel heppnuð. Daniel Craig og Eva Green standa sig að sjálfsögðu vel líka og hæfa hlutverkunum. Auk þess kom skemmtilega á óvart að heyra íslensku talaða í einni senunni.

Á hinn bóginn finnst mér handritið alveg stórgallað. Það nær einhvern veginn ekki að koma til skila því sem er svo heillandi við bækurnar; persónusköpunin er flatari, öll togstreita einfölduð og eiginlega engin spenna í uppbyggingunni. Í fyrsta lagi er farið alveg ótrúlega hratt yfir sögu og einhverra hluta vegna ákveðið að stokkað upp tímaröðinni, t.d. er ísbjarnareinvígið fært nær miðju í stað þess að hafa það undir lokin eins og í bókinni og eins að hagræða því frá hvaða persónum ýmsar upplýsingar koma, sem mér finnst grafa undan söguþræðinum. Síðustu þremur köflunum úr bókinni er svo sleppt og klímaxinu breytt þannig að myndin endar vel á meðan bókin endar illa, með dramatískri uppljóstrun.

Það sem m.a. gerir bækurnar svo heillandi er hvernig Pullman dregur hægt og rólega upp grípandi mynd af söguheiminum. Lesandinn er nánast aldrei mataður á upplýsingum heldur byrjar sagan in media res og maður þarf smám saman að átta sig á því hvað er í gangi og hvernig þessi fantasíuheimur virkar. Í myndinni fær áhorfandinn ekki að átta sig á þessu sjálfur heldur er allt útskýrt og meira segja svo ítarlega að strax í upphafssenunni afhjúpar sögumaður upplýsingar sem eru lesendanum ekki einu sinni ljósar fyrr en í bók tvö og þrjú. Samt verður meiningin ruglingslegri vegna þess að maður fær litla tilfinningu fyrir sögupersónunum og atburðarásinni. Dæmonarnir (fylgjur) til dæmis, sem eru grafískt vel heppnaðir í myndinni en að öðru leyti ekki, eru svo vel sköpuð hugmynd í bókunum að maður finnur til af tilhugsuninni um "intercision". Í myndinni finnst mér það ekki komast til skila hversu órjúfanleg tengslin eru á milli manneskju og fylgju og því hversu andstyggileg mannvonska tilraunir Magisteriumsins á börnum eru; þau verða afmynduð og deyja kvalafullum dauðdaga. Bækurnar segja svo stóra og flókna sögu en í myndinni verður þetta einhvern veginn bara lítið ævintýri um börn sem er rænt og síðan bjargað án mikilla vandræða. Pólitíkin sem er hvatinn að þessu öllu saman og leiðir Lyru inn í það sem á eftir kemur verður lítilvæg fyrir vikið.

Auðvitað verða breytt efnistök þegar 400 blaðsíðna bók er þjappað saman í 113 mínútna langa mynd, en mér finnst synd að úr svona frábærum efnivið sem bókin er skuli verða til auðgleymanleg meðalmynd. Samt sem áður er hún ágætisskemmtun og flott eins og áður segir. En eftir stendur að gerðar eru mun minni kröfur til áhorfandans en lesandans; hasar, tæknibrellur og ytra byrði fær meira vægi á kostnað ögrandi frásagnar, siðferðislegra vangaveltna og togstreitu milli góðs og ills í mannlegu eðli. Sem sagt um það bil alls þess sem ritgerðin mín fjallar um.

Engin ummæli: