mánudagur, desember 24, 2007

Jólin eru að koma

Það er jólalegt heima hjá mér núna. Tréð var skreytt í gær, eftir vinnu. Þá hélt ég líka hið árlega súkkulaðiboð sem getu líklega talist hefð núna þriðju Þorláksmessu í röð. Svo komu vinir mínir í heimsókn. Reyndar var margra saknað sem ekki létu sjá sig né í sér heyra, en þá var bara meira súkkulaði fyrir okkur hin. Og handþeyttur rjómi hvorki meira né minna. Og smákökur sem ég bakaði með ömmu. Svo gengum við fylktu liði niður á Ingólfstorg og hittum þar fleiri glaðvær jólabörn. Gengum í kringum jólatréð og sungum þau jólalög sem við munum enn, með herkjum. Verð að rifja Heims um ból almennilega upp fyrir næstu jól, ég flaska alltaf á því í hvaða röð erindin eru. Við vorum reyndar óvenju fá líka við dansinn, vantaði marga af the usual suspects, svo við þurftum að teygja meira á handleggjunum til að ná í kringum tréð. En svo slógust nokkrir vegfarendur í hópinn með okkur og stækkuðu hringinn.

Svo röltum við aftur sem lá leið upp á Freyjugötu og fólk hugði á heimför. Þau enduðu samt á því að komu fyrst inn aftur til að klára dreggjarnar af heita súkkulaðinu. Það var líka svo helvíti gott. Svo var tekin sería af shakeskin myndum. Hlógum þar til við fengum stingi og krampa í magann og Snæbjörn orðinn rauður og þrútinn um augun. Ég hélt að þetta hláturskast stafaði kannski af svefngalsa því klukkan var farin að ganga þrjú, en í dag eftir að ég var búin að hræra í eftirréttinn fyrir kvöldið og pakka inn gjöfunum til mömmu og pabba lagðist ég upp í sófa og skoðaði myndirnar aftur. Og hló þar til ég fékk viðstöðulaust hikstakast. Þá kom Önni upp því hann hélt ég væri farin að gráta. En svo var ekki. Ég var bara að losa um fleiri endorfín.
Þetta byrjar vel.

Gleðileg jól öll sömul.

Engin ummæli: