fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Baccalaureus artium

Nú hef ég lokið BA prófi í ensku og má héðan af kalla mig enskufræðing. Það væri því kannski óvitlaust að gera grein fyrir þessu námi mínu í stuttu máli, því í gegnum tíðina hef ég orðið vör við að fólk hefur frekar takmarkaðan skilning á því í hverju háskólanám í ensku felst, og ennfremur til hvers í ósköpunum nokkur maður ætti að leggja stund á það. (Hvernig nýtist þetta nám þér eiginlega? Ætlarðu þá að vera kennari? En kanntu ekki ensku?) Viðhorfin til tungumálanáms eru svolítið öfugsnúin, því það virðist nefnilega þykja frekar flott og spennandi að kunna sem flest tungumál, en hinsvegar algjör tímaeyðsla og vitleysa að læra tungumál. Fólk á s.s. helst að kunna tungumálin án þess að læra þau.

Fyrsti misskilningurinn er kannski sá að maður geti kunnað tungumál, þú kannt í raun aldrei tungumál, en þú getur hinsvegar aukið færni þína og dýpkað skilning þinn á því eftir bestu getu. Annar misskilningurinn er sá að eftir að maður hefur lært tungumálið, geti maður ekkert gert við þá kunnáttu annað en að miðla henni áfram og byrjað að kenna öðrum. Þriðji misskilningurinn er sá að háskólanám í ensku sé byggt upp eins og grunnskólanám í ensku, þ.e. að við séum að skrifa stíla, fara í glósupróf og stagla málfræði með eyðufyllingaverkefnum. Á meðan ég skrifaði BA ritgerðina var ég nokkrum sinnum spurð hvort að hún snérist ekki bara um að sýna að ég hefði góðan orðaforða og gæti stafsett rétt. Ef það væri málið gæti hver sem er skilað fullkominni BA ritgerð í ensku upp úr ordabok.is.

Fyrsta árið við enskuskor í HÍ samanstendur af grunn-skyldukúrsum. Þetta eru ekki orðaforðakúrsar þar sem maður situr og lærir orðalista utanbókar, nei. Tungumál er meira en bara orðin sem það samanstendur af. Þann vetur lærði ég breskar og amerískar bókmenntir, breska og bandaríska menningarsögu, enska hljóðfræði, almenn málvísindi, enska málsögu, enska málfræði og tók tvo ritþjálfunarkúrsa (auk heimspekilegra forspjallsvísinda).
Næstu tvö árin tóku valfögin við. Mitt áhugasvið lá aðallega í bókmenntakúrsunum, en ég reyndi samt að velja nokkuð fjölbreytt námskeið. Meðal námskeiða sem ég tók voru skoskar bókmenntir á 20.öld, Kantaraborgarsögur Chaucers, Fantasíubókmenntir, bókmenntafræði, bókmenntagreining, enskt fjölmiðlamál, viðskiptaenska, bandarísk skáldsagnagerð 1900-1950, fornenska og málvísindi.
Það eina sem að vantar upp á í annars góðu námsfyrirkomulagi að mínu mati var auðvitað munnlegi parturinn, því þótt öll samskipti í tímum fari fram á ensku þá skilar það ekki miklu. Þess vegna m.a. ákvað ég að fara í skiptinámið til Bandaríkjanna.

Ég heyri mjög mismunandi hluti um ólíkar deildir og skor innan Háskóla Íslands og ég held að gæða standardinn sé mishár þeirra á milli. Ég er hinsvegar mjög ánægð með enskunámið í heildina litið og tel að þetta sé mjög gott nám. Kennararnir eru upp til hópa algjörlega frábærir; flestir hámenntaðir og sérfræðingar á sínu sviði en auk þess mjög skemmtilegir og greinilega áhugasamir um efnið sem þeir kenna. Helst má nefna Önnu Heiðu Pálsdóttur, leiðbeinanda minn í BA ritgerðaskrifum, en hún er einn skipulagðasti kennari sem ég hef haft og hefur lag á kenna flókið efni með einföldum hætti. Pétur Knútsson held ég að geti talist séní í tungumálum og að sitja tíma hjá Martin Regal er meira eins og að hlusta á uppistand um bókmenntir heldur en kennslustund. Þá eru Matthew Whelpton og Julian D'arcy miklir snillingar, og fannst mér bókmenntatímar þess síðarnefnda svo skemmtilegir að ég sakna þess að þeir séu búnir.

Sumsé, ég er í heildina litið mjög ánægð með BA námið mitt, fannst það bæði gagnlegt og skemmtilegt. Ég er bæði ánægð með að hafa byrjað á því og að hafa lokið því.

Engin ummæli: