mánudagur, febrúar 11, 2008

Sendið PETA á mig
Ég hef aldrei keypt mér dýrafeldi. Einhvern veginn hefur það samt æxlast þannig að ég á dágott safn af slíkum nytjagripum. Má þar nefna fagurgrátt kanínuskinn sem Anna gaf mér í jólagjöf og er óskaplega mjúkt um hálsinn. Svo á ég eldrautt vesti úr klipptum ref sem ég fékk frá tengdaforeldrum mínum fyrir nokkrum árum. Þessi jól gáfu þau mér líka trefil úr minkaskinni, sem keyptur var í Moskvu. Ekki veit ég hversu margir minkar fóru í hann, en hann er efnismikill. Punkturinn yfir i-ið er svo ennisbandið úr minkaskinni (íslensku) sem Önni gaf mér. Allt hefur þetta komið sér afar vel í kuldakastinu sem nú er að ljúka. Ekki síst þar sem ég hef tekið upp þann sið að nýta mér strætókerfið. Dýraskinn eru ótrúlega hlý og mjúk og kuldaboli beit ekkert á mig. Eftir þessa reynslu myndi ég því jafnvel íhuga að kaupa mína eigin feldi. Ef ég ætti ekki svona marga.

Vert er að benda á...
...að stofnuð hefur verið sérstök síða af áðurnefndri Önnu, þar sem Asíuferðinni upprennandi verður vonandi gerð skil í samvinnu okkar ferðafélaganna. Þar er eitthvað komið inn nú þegar en hún mun sjálfsagt glæðast lífi þegar við leggjum í hann þann 1.mars. Ég er samt svo mikill egóisti að ég blogga örugglega aðallega um ferðina frá mínum sjónarhóli hér. Hamskiptin eru bara orðin of samofin mér til að ég tími að skilja þau útundan. En slóðin er sumsé www.asiuflakk.blogspot.com , endilega kíkið.

Engin ummæli: