laugardagur, apríl 04, 2009

Víkverji um onsen

Heitt vatn skipar stóran sess í lífi Víkverja, sem er fastagestur í sundlaugum Reykjavíkur. Fyrr í þessari viku hafði Víkverji t.d. sjávarpottinn í Laugardalnum út af fyrir sig og gat því látið sig fljóta í heitu vatninu, falinn þéttri gufu sem einstaka sólstafur smaug í gegnum og eitt augnablik sannfærðist Víkverji um að sennilega væri hann staddur í himnaríki. Ekki er vellíðanin minni í gufubaðinu og sánu. Sæluhrollur hríslast ævinlega um Víkverja um leið og fæti er stigið í sjóðandi heita gufu, ekki síst eftir almennilega heitt og kalt-meðferð, þ.e.a.s. þegar Víkverji dembir sér í ískalt bað og sjóðheita gufu til skiptis þangað til líkaminn kemst í allt að því vímukennt ástand. Víkverji er þakklátur finnsku hugviti fyrir að hafa fært sér slíka alsælu í formi sánu og er raunar staðráðinn í því að byggja sér einhvern tíma einkasaunu heima hjá sér – góðæri eður ei.

Sundlaugamenning Íslendinga er til fyrirmyndar og Víkverji er þakklátur fyrir að búa í landi þar sem nóg er af heitu vatni til að fullnægja þessari nautn hans. Hinsvegar mættu Íslendingar ýmislegt læra af öðrum þjóðum í þessum efnum. Í hinum fullkomnasta heimi allra heima (í huga Víkverja) eru pottarnir og sánan aðskilin sportinu, þ.e.a.s sundlaugunum og hasarnum, til að fullkomna slökunina. Og í fyrra uppgötvaði Víkverji reyndar að þessi fullkomni heimur er til. Hann er í Japan. Baðhúsamenning Japana er í mörgu lík sundlaugamenningu Íslendinga nema hvað þar eru baðhúsaferðirnar nánast eins og helgisiður.

Í Japansför sinni heimsótti Víkverji margar slíkar onsen- eða sento-laugar. Það voru jafnt úthverfa-onsen í Kyoto, gamlar klettalaugar í flæðarmáli Shirahama, lúxus-onsen á Odaiba-eyju í Tókýó og sveita-onsen við rætur Fuji-fjalls. Alls staðar er sama áherslan á innri og ytri hreinsun og slökun. Víkverji var heillaður. Þegar hann er búinn að byggja sér einkasána í framtíðinni verða íslensk/japönsk onsen næsta verkefni.

Engin ummæli: