Netið og bækur og ég
Tveggja mánaða internetlausu tímabili á Freyjugötu lauk nú í síðustu viku. Upphaf þess var sennilega að RHÍ fattaði loksins að töluvert er liðið síðan íbúar litla hússins með rauðu hurðina voru skráðir í HÍ. Ekki get ég sagt að þetta hafi verið mikil þolraun, þótt stundum höfum við saknað þess.
Undanfarið hef ég eytt frítíma mínum í auknum mæli í bókalestur og því tekið upp þráðinn sem ég skildi við fyrir einhverjum árum. Ég átti aldrei gott með að sameina háskólann og áhugalestur, þar sem ég var alltaf með samviskubit yfir að vera ekki að læra heima ef ég las mér til ánægju og endaði því á að lesa ekki neitt í staðinn...eða hanga á netinu. Nú hef ég ekki þurft að hafa samviskubit af námsbókum í heilt ár og hef smám saman verið að átta mig á frelsinu sem því fylgir.
Eiginlega endurheimti ég samt aftur ánægjuna sem fylgir því að finna nýja bók í Asíuferðinni. Þegar ég var krakki var ferð á bókasafnið eins og að fara í nammiland. Ég hjólaði á Héraðsbókasafn Kjósarsýslu yfirleitt tvisvar sinnum í viku og reglan var sú að taka 1-2 skáldsögur og 2-3 myndasögur (Tinni og Lukku-Láki í mestu uppáhaldi) í hvert skipti. Síðan hefur mér alltaf þótt gaman að fara í bókabúðir, en yfirleitt hef ég ekki gert mikið af því að kaupa bækur vegna þess A) að ég átti ekki pening og B) ég hugsaði með mér að ég hefði hvort eð er ekki tíma til að lesa.
Á Asíuferðalaginu var hinsvegar bráðnauðsynlegt að ná sér reglulega í nýja bók til að stytta sér stundir í allt að sólarhringslöngum rútu/lestar/flugferðum. Reglubundið stopp í bókabúðum var því hluti af dagskránni og það var svo gaman að skoða fjársjóðinn og velja, vitandi að ég myndi strax byrja að lesa bókina og njóta hennar.
Eftir heimkomuna hef ég svo getað viðhaldið þessu skemmtilega áhugamáli þar sem ég er ekki í skóla. Stundum get ég varla beðið eftir að komast heim úr vinnuni til að hlamma mér í sófann og byrja að lesa. Nú þegar internetið er komið aftur í húsið finnst mér samt ótrúlegt hvað það hefur mikið aðdráttarafl líka....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli