What are you sinking about?
Í Sunnudagsmogga síðustu viku, þ.e.a.s. 22. mars, er áhugavert viðtal við skólasystur mína úr enskunni sem nú er í doktorsnámi, Huldu Kristínu Jónsdóttur. Doktorsverkefni hennar snýst um að gera heildarúttekt á stöðu enskunnar á íslandi m.a. út frá þeim punkti hvort verið geti að Íslendingar ofmeti enskukunnáttu sína almennt og hvort það hafi hugsanlega haft skaðleg áhrif í viðskiptalífinu. Þetta minnti mig á frétt sem ég heyrði fyrir nokkrum árum og bloggaði m.a. um hér, þar sem fram kom að 40% lögfræðinema og 60% viðskiptafræðinema í Háskólanum í Reykjavík teldu sig tala ensku á við innfædda. Þetta lýsir mjög mikilli vanþekkingu á tungumálum, hroka og ofmati á eigin getu.
Nokkrum árum síðar varð mér hugsað til þessarar fréttar þegar ég sendi umsóknir um sumarstörf til fyrirtækja um allan bæ, þ.á.m. til bankanna. Þar var maður beðinn að leggja mat á eigin tungumálakunnáttu með því að merkja í reiti á bilinu "engin" til "eins og innfæddur". Ég staldraði við, því ég vissi að ég tala ekki ensku eins og innfædd, en ég vissi líka að sennilega merktu margir aðrir umsækjendur óhikað við að enskukunnátta þeirra væri svona aldeilis fullkomin. Átti ég að vera raunsæ og heiðarleg eða ofmeta mig til að vera samkeppnishæf við alla hina sem ofmátu sig?
Þess má síðan geta að þessi könnun í HR var gerð meðal nema í viðskiptafræðideild árið 2004. Það þýðir að þessir sömu viðskiptafræðinemar hafa gusast inn í bankana eftir útskrift næstu árin fram til 2007. Fyrst þeir höfðu svona brenglaða sýn á eigin enskukunnáttu er ekki útilokað að þeir hafi líka stórlega ofmetið færni sína og kunnáttu í öðrum málum, svo sem að höndla með háar upphæðir annarra manna peninga.
Þessi hefur sennilega merkt við "eins og innfæddur" þegar hann sótti um hjá landhelgisgæslunni:
Engin ummæli:
Skrifa ummæli