sunnudagur, ágúst 24, 2008

Koh Tao - Bangkok - Heim

Þessi færsla hefur verið hálfkláruð í heila eilífð en ég hef einhvern veginn ekki haft eirð í mér til að blogga síðan ég kom heim. Afleiðingin er því lengsta bloggpása í sögu þessarar síðu, en nú langar mig að taka upp þráðinn og ég ætla að brjóta ísinn með því að ljúka ferðasögunni, þótt seint sé.

Það var ekki skýjað í Taílandi lengi. Þvert á móti brosti sólin við okkur nánast það sem eftir var ferðarinnar og við nutum lífsins sem aldrei fyrr. Ég skildi við söguna þar sem við vorum á leið í hið alræmda Full Moon partý á Koh Phangan. Það stóð fyllilega undir væntingum í því að vera mannmargt, skrautlegt, sveitt og kaótískt. Sem sagt fróðlegt í alla staði. Ég var svolítinn tíma að komast í gírinn enda ekki alveg mitt krád allajafna, en eftir að hafa makað okkur í bak og fyrir í sjálflýsandi líkamsmálningu og merkt okkur vandlega með íslenska fánanum, þá varð ekki aftur snúið og við botnuðum fötur undir dúndrandi tekknói þar til sólin reis.
Glaðar undir fullu tungli

Seinna þann morgun ákváðum við að hunsa alla þreytu eftir nóttina og koma okkur frá syndabælinu áður en hinir verr förnu röknuðu úr rotinu. Við drifum okkur því niður á bryggju og tókum bátinn að minnstu eyjunni í klasanum, Koh Tao, sem endaði á því að verða lengsta stoppið okkar í ferðinni því þar eyddum við 11 dögum í alsælu.
Samt varð lítið úr heilalausa strandlífinu sem ég hafði talað um, allavega hjá okkur Ásdísi því við ákváðum að skella okkur á köfunarnámskeið hjá Ban's Diving Resort, sem varð brátt eins og heimavistarskóli fyrir okkur á Skjaldbökueyjunni fögru. Kvöldið eftir Full Moon var ég því mætt í fyrsta bóklega tímann, þar sem okkur var meira að segja sett fyrir heimavinna. Ég sá hinsvegar ekki eftir þessari ákvörðun, þrátt fyrir að hafa verið hikandi fyrst, því köfunin fór fram úr öllum mínum væntingum.
Á leið í sjóinn í fullum herklæðum

Ég átti ekki von á því að ég myndi fíla það svona mikið að kafa, bjóst alveg eins við að mér þætti það óþægilegt þar sem ég hafði heyrt að sumum líði mjög illa í kafi, fái innilokunarkennd o.s.frv. Ég elskaði hinsvegar þyngdarleysið sem fylgir köfuninni, fann fyrir frelsistilfinningu frekar en hitt og varð strax tamt að anda í vatninu. Kannski mun ég fylgja þessu eitthvað eftir og prófa að kafa hér líka, í Silfru t.d., en ég held samt að fátt toppi það að geta kafað niður á 28 metra dýpi í bikiníi einu fata án þess að finna fyrir hitastigsbreytingu. Sjórinn í Taílandsflóa er dásamlegur og ég fékk að sjá með eigin augum að heimurinn er ekki síður fagur neðan sjávar en ofan.
Litfagrir kórallar á botni Taílandsflóa

Ekki skemmdi félagsskapurinn fyrir. Hópurinn okkar samanstóð af kanadískum frændsystkinum, hollensku pari og breskum hjónum í brúðkaupsferð. Öll mjög spræk og fyndin og við eyddum miklum tíma saman næstu daga. Kennarinn okkar var ekki síðri, Anthony frá Bretlandi, algjör jaxl og með reyndustu kennurunum á svæðinu. Hann var ástíðufullur kafari og það var erfitt að hrífast ekki með honum þegar hann lýsti undrunum neðansjávar, en reyndar eyddi hann ekki minni tíma í að lýsa undrum marijúana-laufsins. Anthony tók strax ástfóstri við okkur vinkonurnar og átti það til að æpa "ICELANDIC PEOPLE ROCK MY WORLD!!" og álíka slagorð áður en hann stakk sér út í sjóinn. Mjög eftirminnlegur karakter.
Með Anthony á bátnum, þar sem tvíræðir brandarar flugu jafnan fyrir köfun

Einn (margra) hápunkta úr köfuninni var næturköfun, þar sem við sigldum út í sólsetrið og stukkum út í eftir myrkur. Þá er kafað með luktir, en þegar við komum niður á hafsbotn slökktum við á luktunum, gáfum augunum smá tíma til að aðlagast og syntum svo af stað út í myrkrið. Það var ný upplifun að kafa í myrkri, því fleiri dýr fara á stjá á nóttunni en á daginn, litirnir á kóröllunum verða allt öðru vísi og ef maður hreyfir hendurnar hratt þyrlast upp lítil svif eða þörungar sem eru sjálflýsandi í myrkrinu.
Hæsti hápunkturinn var hinsvegar köfun sem ég missti af. Restin af hópnum okkar ákvað að halda áfram einn dag í viðbót og ljúka "advanced" hluta námskeiðisins, en í viðleitni til að spara (var einhver 11þús kall aukalega) tókum við Ásdís þá slæmu ákvörðun að sleppa því. Þann daginn voru þau ekki komin nema 2 metra undir yfirborðið þegar þau mættu 6 metra löngum hvalháf sem naut þess að svamla um með þeim og finna loftbólurnar úr súrefniskútunum kitla á sér magann. Anthony var með myndavél í för í þetta skiptið og okkur voru gefnar ótrúlegar myndir af hópnum að kafa með háfnum, öllum nema okkur og ég grét mig nánast í svefn um kvöldið. Næst þegar ég fer til Taílands...

Kanadíski félagi okkar hann Derek á sundi með hvalháfnum og fylgifiskum

Að köfuninni slepptri var svosem ekki mikið við að vera á Koh Tao, og þó. Við fórum á Ladyboy Cabarett sýningu sem byrjaði á drag-keppni og endaði með talsverðri nekt og einni furðulegustu stemningu sem ég hef upplifað. Myndir segja meira en þúsund orð, en hinsvegar eru myndirnar fæstar þess eðlis að þær eigi heima á sómasamlegri bloggsíðu eins og minni. Við fórum líka á "fight night", í boxhring úti fyrir bænum þar sem menn á aldrinum 7-30 ára börðust í frekar frekar grófu muya thai sparkboxi.

Annars einkenndist lífið þessa dagana helst af afslöppun og partýum í bland. Eftir sólríkan dag á ströndinni eða í sjónum tóku flestir stefnuna á happy hour á Ban's barnum, þar sem maður varð fljótt hagvanur enda safnaðist alltaf sama fólkið þar saman til að sötra kaldan drykk og horfa á sólsetrið. Meðalaldurinn á Koh Tao er líklega um 25 ára og þar gengur allt út á að vera ungur og áhyggjulaus, stemning sem er mjög auðvelt að ánetjast en erfiðara að slíta sig frá. Enda breyttust plön okkar í samræmi við það. Upphaflega var ætlunin að verja síðustu 5 dögunum í Bangkok, en sem við flatmöguðum í tærum, 30° heitum sjónum einhvern daginn gátum við ekki hugsað okkur að yfirgefa þessa paradís fyrir enn eitt steinsteypufarganið, svo það var einróma samþykkt að vera sem allra lengst á Koh Tao.

Á Koh Tao koma falleg sólsetur á færiböndum

Bangkok var því úthlutað tveimur dögum, sem við eyddum eingöngu í að versla á meðan við reyndum að venjast þeirri tilhugsun að þetta væri allt saman búið. Það var gott að koma heim, en hinsvegar fylgdi því ákveðin tómleikakennd fyrir mig þegar þessi ferð, sem átti hug minn allan undanfarið ár, var allt í einu ekki lengur framundan heldur að baki. Ekki síst þar sem framtíð mín var ekki ráðin lengur en til 31.ágúst, en eftir það vissi ég ekki hvað tæki við. Úr því hefur hinsvegar nýlega verið ráðið og ætli ég sé ekki því ekki u.þ.b. að ná að jafna mig á þessu öllu saman.

En svo það verði nú einhver niðurstaða af þeim orðaflaumi sem undirlagði síðuna í tengslum við þessa Asíuferð, þá má segja að lærdómurinn sé tvískiptur (og hástemmdur auðvitað). Í fyrsta lagi var þetta enn frekari áminning um það, sem ég varð fyrst áskynja 14 ára í enskuskóla og síðan aftur tvítug í skiptinámi, að heimurinn er fullur af góðu fólki. Það skiptir ekki máli hvert maður fer, alls staðar hittir maður gott fólk. Mikið er gott og hollt að vera minntur á það.
Í öðru lagi lærði ég að heimurinn er enn minni en ég taldi hann vera. Ég finn það núna betur en nokkru sinni að heimurinn hreinlega liggur að fótum mér og ég get farið hvert á land sem er. Fimmtíuþúsund kall og hálfur sólarhringur í flugvél og þú ert kominn hinum megin á hnöttinn. Það er ekki erfiðara en það.

Engin ummæli: