Já, já, já
Á miðvikudaginn sáum við Önni myndina Yes Man í bíó. Hún reyndist vera prýðisskemmtun. Boðskapurinn er heldur ekki sem verstur, í þeirri ýktu mynd sem hann birtist þó að hætti Jim Carry. Að vera vakandi fyrir því að grípa tækifærin sem lífið hefur upp á að bjóða þótt það krefjist þess að fara út úr þægindabubblunni. Bara fara út, drekka ógeðslega mikið af redbull og reifa.
Jæja. Kannski var ég undir áhrifum þessarar myndar þegar ég fékk símtal daginn eftir í gegnum frænku mína þar sem örvæntingarfullur hársnyrtinemi bað mig um að gerast prófverkefnið sitt í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Hugur minn öskraði "JÁ MAÐUR! JÁ MAÐUR!" Og ég sló til. Mætti í Iðnskólann í Hafnarfirði snemma í gærmorgun.
Núna er ég eiginlega rauðhærð. Ég veit ekki alveg hvort ég get vanist þessu. Liturinn er svo sem ágætur en ég fattaði það ekki fyrr en núna að ég hef alltaf verið stolt bimbó. Ég þekki mig eiginlega ekki í spegli. Ég ætla samt að leyfa þessu að vera aðeins og sjá hvað gerist. Aðaláhyggjuefnið er að nú verði endanlega ómögulegt að þekkja okkur systurnar í sundur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli