miðvikudagur, janúar 14, 2009

Að sjá heiminn

Einn vinnudag í nóvember tók ég viðtal við tvo menn sem hafa málað sig algjörlega út í horn í samfélaginu og eiga sér varla viðreisnar von. Síðan hafa þessir ógæfumenn haft samband við mig öðru hvoru, til að láta mig vita af sínum högum og biðja mig um að skrifa meira um sig, í þeirri von að einhver aumki sig yfir þá.
Nú síðast í kvöld hringdi annar þeirra í mig meðan ég var í vinnunni. Þetta er frekar róleg vakt svo ég sá enga ástæðu til að slíta samtalinu og við enduðum á því að spjalla í góðan klukkutíma. Eða hann talaði öllu heldur, og ég hlustaði, á frásagnir hans af því marki sem hann er brenndur eftir um fjögurra ára veru í Frönsku útlendingahersveitinni þegar hann var 21-24 ára, á svipuðum aldri og ég.

Útlendingahersveitin barðist á þessum tíma við "uppreisnarmenn" í Afríku eftir nýlendutímann, í kringum 1979. Minn maður dvaldist lengst af í Tsjad en eitthvað á Fílabeinsströndinni líka. Maður hefur nú heyrt af því áður að Franska útlendingahersveitin sé andstyggilegt batterí og sögurnar sem hann sagði styðja það enda vægast sagt ógeðslegar. Ef satt er finnst mér ekki skrýtið þótt maður sem verði vitni að og þátttakandi í svona hörmungum geti aldrei orðið hæfur þjóðfélagsþegn aftur og drekki frá sér æruna.
Ég hef enga sérstaka ástæðu til að rengja hans frásögn en fyrir forvitnis sakir googlaði ég frönsku útlendingahersveitina til að kanna hvað kæmi upp á íslenskum síðum. Þar fann ég svosem ekkert sem staðfesti vist hans þar, en hinsvegar koma fyrstir upp spjallþræðir á Huga.is þar sem unglingsstrákar (15-19 ára) tala um það sín á milli hvað það sé nú spennandi að ganga í Frönsku útlendingahersveitina.

Einn þeirra skýrir það þannig að hann sé mikill ævintýramaður og hafi gaman af því að ferðast. Mikið finnst mér það sorglegt að strákar sem búa við þau forréttindi að alast upp í herlausu landi og þurfa aldrei að búa við stríð, skuli gagngert sækjast eftir því að komast í stríðsátök. Þeir telja sig vita hvað þeir fari út í og kenna það við ævintýramennsku, en mér finnst það meira í ætt við vanvirðingu við þá forréttindastöðu sem þeim hefur verið gefin. Það er óskandi að stríðsáhuginn rjátli af þeim áður en þeir láta verða af því að ganga í Frönsku útlendingahersveitina og komi skemmdir á sálinni heim.

Ef það er ævintýri og ferðalög sem þeir sækjast eftir þá er hægt að finna þau með heilbrigðari hætti en að gerast hermaður. Fyrir utan það að sem hermaður er um mjög takmarkað ferðafrelsi að ræða og ekkert færi til að skoða heiminn á eigin forsendum. Kannski er hvötin samt sú kynnast heiminum öðru vísi en sem ferðamaður og upplifa átakasvæði. En hvernig væri þá t.d. að ganga til liðs við sjálfboðaliðasamtök, SÞ eða RK, og taka þátt í uppbyggingu á stríðshrjáðum svæðum í stað þess að ganga sjálfviljugur til liðs við eyðilegginguna þar sem strákar eru látnir murka lífið hvor úr öðrum hvort sem þeir vilja það eða ekki.

Ég held að það séu engar hugsjónir sem liggja baki draumum íslenskra stráka að ganga í her. Enginn sérstakur málstaður sem þeir vilja berjast fyrir, enda er málstaðurinn yfirleitt umdeilanlegur í stríði. Kannski telja þeir sér trú um að þetta sé ekki eins og það var og nú sé barist á "siðmenntuðum" nótum. En ég held að það sem Franska útlendingahersveitin tekur þátt í núna í Afghanistan, Djibouti eða Kongó sé ekkert minna ógeðslegt en það sem átti sér stað í Rúanda, á Fílabeinsströndinni og í Tsjad fyrir 20 - 30 árum.

Engin ummæli: