Mestu mótmæli frá 1949
Mig grunar að margir hafi kannski skekkta mynd af mótmælunum miklu við Alþingi í gær. Þess vegna langar mig að lýsa hvernig þetta horfði við mér. Ég var þarna á vegum vinnunnar að fylgjast með frá því kl. 12:45 og til rúmlega 16, í næstum fjórar klukkustundir. Það kom mér fyrir það fyrsta á óvart hversu ótrúlega margir mættu, hversu þrautseigt fólk var og hversu friðsamlega þetta fór fram lengst framan af.
Það fyrsta sem ég veitti athygli var breitt aldursbil. Það var mjög mikið af eldra fólki þarna mætt með potta og skeiðar, flautur og hrossabresti (hvar fær fólk alla þessa hrossabresti?). Fæstir voru grímuklæddir. Þannig hefur það verið á mótmælafundunum á laugardögum, en ég hafði frekar átt von á því að þarna yrði ungt fólk í miklum meirihluta. Svo var ekki.
Það voru liðnar um tvær klukkustundir áður en kom til nokkurra stympinga. Fram að því stóð lögreglan frekar róleg og fylgdist með. Ég tók nokkrum sinnum tal við lögreglumenn sem tóku allir undir það að mótmælin væru á mjög friðsamlegum nótum. Eins sá ég marga mótmælendur á spjalli við lögreglu í mesta bróðerni. Í rauninni stóðu bæðu mótmælendur og lögregla sig vel í þessari samvinnu. Þarna var enginn sem leiddi mótmælin, enginn sem tók til máls eða skipulagði aðgerðir, en það var samt greinilegt að fólk var mjög samstillt. Þegar hópurinn, sem þá var sennilega e-ð í kringum 2.000, tók að dreifa sér umhverfis húsið fylgdi löggan þeim eftir en skipti sér lítið af fólki. Enda var greinilega ekki verið að skemma neitt eða brjóta, það eina sem var kastað voru snjóboltar, og rúður glerskálans voru lamdar að utan með flötum lófum til þess eins að framleiða hávaða, ekki til að brjóta. Það tókst líka. Hávaðinn. Það var barið á trommusett, fötur, potta og hjólbörur. Það var eiginlega bara rífandi stemning og ekki séns að þingfundur hafi verið ótruflaður.
Ég fylgdist með þegar piparúðinn fór að fljúga í Alþingisgarðinum. Þá var fólk búið að vera þar í um klukkustund og frá því þar sem ég stóð, við garðvegginn, gat ég ekki séð að það hefði orðið nein stigmögnun. Þess vegna skildi ég ekki alveg hvað krafðist þess að löggan breytti allt í einu um taktík og úðaði fólk, en ég get samt ekki fullyrt um það sem gerðist í "fremstu víglínu". Það má vel vera að þar hafi einhverjir kastað grjóti eða gert annað sem kallaði á þessi viðbrögð, en hópurinn í heild var ennþá að hegða sér á sama hátt og í tvær klukkustundir á undan.
Ég varð hinsvegar svekkt þegar þessi eðlisbreyting varð á mótmælunum, því um leið og kemur til átaka við lögreglu þá hætta mótmælin að snúast fyrst og fremst að ríkisstjórninni og verða allt í einu "við á móti löggunni". Það finnst mér leiðinlegt því um það snýst þetta ekki, löggan ber enga ábyrgð á ástandinu hérna. Piparúðanum var beitt nokkrum sinnum og mótmælendur skiptu snjóboltum út fyrir egg og Ab-mjólk. Samt sauð í raun ekki verulega upp úr, a.m.k. þannig að sá mikli fjöldi fólks sem var í rólegri kantinum sá enga ástæðu til að fara. Það voru margir sem fylgdust með á hliðarlínunni en sýndu stuðning sinn greinilega með nærverunni. Ég var síðan ekki þarna um kvöldið svo ég get ekki sagt til um hvernig mótmælin voru þá, en það eina sem mér fannst verulega leiðinlegt að heyra af var að málningu hefði verið kastað á Alþingishúsið. Oslóartréð mátti alveg missa sín og hefði hvort eð er brátt verið tekið niður svo þar var enginn skaði skeður.
Það sem mig langar að koma á framfæri með þessu er að þeir sem finna sig ekki í því að öskra eða vera með læti, geta samt ekki notað það sem afsökun fyrir að láta ekki sjá sig. Allir sem á annað borð eru ósáttir geta fundið sinn stað í þessum mótmælum, því þarna er fólk af öllum stærðum, gerðum og aldri. Að stærstum hluta eru þetta friðsamar aðgerðir, þótt pústrar verði í litlum hópum, og þær skila árangri til lengri tíma litið. Það er augljóst mál að ríkisstjórnin mun leysast upp á þessu ári og líklega fyrr en seinna. Það er ekki hægt að líta hjá þeirri staðreynd, sama hvort maður vill það eða ekki, því svona getur þetta ekki haldið áfram lengi. Margir héldu því fram að mótmælin væru búin þegar fækkaði í þeim yfir jólin, og hlakkaði í sumum. Þeir sömu þurfa nú að éta það ofan í sig, þetta hefur stigmagnast og mun halda áfram að stigmagnast þar til eitthvað gerist.
Mæli m.a. með þessum stutta pistli eftir Þröst Helgason, kollega minn á Mogganum (smella til að stækka):
Engin ummæli:
Skrifa ummæli