Morðinginn gengur ennþá laus
„AGALEGA er ég skúffuð með nýja sunnudagsleikritið, þetta er allt svo ógeðslegt fólk," sagði amma um daginn. Ég er orðin svo læs á hana ömmu mína að ég skildi strax að hún átti við danska sjónvarpsþáttinn Album, sem tók við af Sommer á sunnudagskvöldum.
Við amma eigum það sameiginlegt með Davíð Oddssyni og ömmu hans að vera voða miklir vinir. Við eigum það líka sameiginlegt, þótt ég viti reyndar ekki með afstöðu seðlabankastjóra í þeim efnum, að elska danskt sjónvarpsefni. Amma var samt ekki alveg sátt við eymdina í Album og fagnar því nú eflaust að næsta sería af Sommer sé væntanleg á skjáinn. Ég hins vegar get ekki beðið eftir næstu seríu af Forbrydelsen, besta glæpaþætti fyrr og síðar. Ég þori samt ekki að fletta upp á því hvenær nýja serían kemur því ég er svo hrædd um að finna út hver morðinginn var í fyrstu seríu.
Já, þótt fáránlegt sé þá hef ég - heitasti aðdáandi Glæpsins - aldrei séð lokaþáttinn því það vildi svo illa til að daginn áður en hann var sýndur fór ég af landinu í nokkra mánuði. Síðan hef ég lifað í stöðugum ótta um að einhver missi nafnið út úr sér, en ekki verið nógu tæknivædd í niðurhalið. Getur einhver hjálpað mér?
Birtist sem Ljósvakapistill fimmtudaginn 12. febrúar 2009.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli