föstudagur, maí 01, 2009

Ísland vs. Fjarskanistan

Ég hef látið það fara í taugarnar á mér síðan kreppan skrapp á, og reyndar áður líka, þegar tekið er viðtal við Íslendinga sem eru nýkomnir heim frá Afríku og eru uppvægnir að fræða okkur hin um hvað okkar vandamál séu mikið hjóm í samanburði svo við eigum að hætta þessu væli. Þetta er í grunninn alveg rétt, en þetta fólk er ekki að fræða mig um eitthvað sem ég ekki veit auk þess sem ég kýs að miða kröfur mínar til velferðarríkisins hér ekki við þriðja heims ríki.

Núna er ég nýkomin heim eftir stuttan skreppitúr til Bonn í Þýskalandi þar sem ég tók þátt í málstofu fyrir unga blaðamenn, samhliða ráðstefnu á vegum World Health Organization um umhverfis- og heilbrigðismál. Og ég get ekki neitað því að ég sný aftur úr þessari ferð ekki alls kostar laus við einmitt þessa tilfinningu. Ég fór þarna með það í huga að við Íslandi blasi nú ýmis ný vandamál vegna aðstæðna og fróðlegt væri að bera það saman við stöðu annarra landa. Þegar á reyndi fannst mér ég þó í raun hafa lítið til málanna að leggja því svo ólíku var saman að jafna.
Margir hlutar stjórnsýslunnar er enn í Bonn, s.s. umhverfisráðuneyti Þýskalands þar sem málstofan okkar var haldin

Í þetta skiptið hitti ég fólk frá nokkrum löndum sem ég hef ekk haft kynni af áður, þ.e.a.s fjarskanistan löndunum í Mið-Asíu. Þarna voru ungir blaðamenn frá Kazakhstan, Kyrgizstan, Uzbekistan og Tajikistan. Auk þess Armeníu, Albaníu, Bosníu og Herzegóvínu, Búlgaríu, Eistlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Litháen, Noregi, Moldóvíu, Rússlandi, Makedóníu og Bandaríkjunum.

Sjálf þrífst ég á svona alþjóðasamskiptum eins og ég hef eflaust áður talað um á þessu bloggi. Mér finnst fátt skemmtilegra en að sitja með hópi fólks frá ólíkum löndum og bera saman löndin okkar, bakgrunn og viðhorf. Við slík tækifæri lærir maður alltaf eitthvað nýtt en yfir gnæfir sú notalega tilfinning að alltaf á maður nú ótrúlega margt sameiginlegt með fólki sama hvaðan það er úr heiminum. En mikið virtust vandamál Íslands smávægileg í samanburði við þau vandamál sem kollegar mínar í Austur-Evrópu og Mið-Asíu eiga við að etja.

Nokkrir kollega minna ræða saman á málstofunni

Þau Lyudmila og Bakhrom frá Úzbekistan skýrðu t.d. frá því hve erfitt er fyrir þau að fjalla um háa tíðni barnadauða vegna þess að ríkisstjórnin meinar fjölmiðlum að nefna neinar tölur að segja hversu stór vandinn er. Svipaða sögu sagði Galiya frá Kazahkstan, þar sem yfirvöld buðu Írönum að koma endilega og dömpa öllum kjarnorkuúrganginum sínum í sveitirnar ef þá langaði til. Galiya og aðrir ungir blaðamenn gagnrýndu stjórnvöld harðlega fyrir þetta og voru í kjölfarið handtekin. Mengað vatn er stórt vandamál í mörgum þessum löndum, t.d. Litháen, þótt maður sé gjarn á að hugsa bara um Afríku í því samhengi. A.mk. 13 þús evrópsk börn deyja árlega vegna þess að þau hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni. Flestir eiga blaðamennirnir frá þessum löndum í endalausa glímu við ríkisstjórnina um upplýsingagjöf. Þeir ýmist fá ekki í hendur eða mega ekki birta tölur um loftmengun vegna umferðar, dauðsfalla vegna skemmdra matvæla o.s.frv. Mér fannst ég einstaklega bláeygð í samanburði með minn íslenska bakgrunn.

Á kvöldin skemmtum við okkur svp í kokteilboðum borgarstjórnar Bonn og WHO, nýttum okkur ókeypis áfengi eins og maður gerir auðvitað þegar maður er ungur, spiluðum foosball á pöbbum og ödduðum hvort öðru á Facebook. Lík en samt svo ólík.

Beygingarmynd dagsins: drasls

Engin ummæli: