Fyrir akkúrat viku síðan var ég að feta mig niður hlíðar Öræfajökuls eftir að hafa staðið í mikilli sigurvímu í 2.109 m hæð á toppi Hvannadalshnúks. Gangan hafði verið í undirbúningi síðan í febrúar og því mikil gleði sem fylgdi því að ná toppnum.
Vikurnar fyrir gönguna var ég alltaf að rekast á viðtöl við fólk sem gengið hafði á Hnúkinn og alltaf var viðkvæðið að það hefði nú komið á óvart hversu auðvelt þetta væri, hreint ekki svo mikið mál. Ég ályktaði því að það væri greinilega ekki í tísku að viðurkenna hversu ógeðslega mikið púl það væri að koma sér þarna upp - því ég efaðist ekki um að það væri svínslega erfitt. Ég ákvað fyrirfram að ég skyldi sko brjóta þagnarmúrinn og tala hreint út um hversu erfið mér þætti gangan.
Hluti af ástæðunni fyrir því hvað ég miklaði þetta fyrir mér var hversu erfið mér fannst gangan á Eyjafjallajökul í apríl. Sú ganga tók tæpa 10 klst með um 1.600 metra hækkun (í blindbyl að vísu), en á Hvannadalshnúk gengum við í tæpa 16 klst og 2.000 metra hækkun. Mér hugnaðist ekki samanburðurinn enda fannst mér ég fara algjörlega út að þanmörkum líkamlegrar getu minnar á Eyjafjallajökli.
Það sem ég hef hinsvegar lært af þessari göngusyrpu okkar síðustu 5 mánuði er að öllu máli skiptir að halda jöfnum takti, á eigin hraða og sprengja sig ekki við að reyna að fylgja þeim hraðskreiðari eftir. Af 16 klst göngutíma á Hvannadalshnúk (við vorum í lengra lagi af ýmsum ástæðum - m.a. góðu veðri á toppnum) var ég frekar góð á því í 15 klst. Síðasti klukkutíminn var vissulega mikið kvalræði í öllum líkamanum en ég var líka fljót að jafna mig. Daginn eftir fór ég út á tún að hlaupa með nýja hvolpinum okkar Snata og var í mesta lagi smá stirð í mjöðmunum. Daginn eftir Eyjafjallajökul í apríl var ég eins og spýtukarl og verkjaði í alla liði.
Niðurstaðan er sem sagt sú að það kom mér í fyrsta lagi á óvart hversu viðráðanleg gangan á Hvannadalshnúk var. Í öðru lagi hversu lengi sigurvímann endist. Það er einstök tilfinning að sigrast svona á sjálfum sér, bæði eigin efasemdum og líkamlegri sérhlífni. Ég hef ofurtrú á kroppnum á mér síðan ég kom niður, mér finnst ég hraust, sterk og að springa úr lífi. Að ná takmarki sem unnið hefur verið að lengi, keyra út líkama sinn og drekka um leið í sig fjallaloftið og fegurðina, það fyllir mig af hamingjutilfinningu sem ég svíf ennþá á viku síðar.
Ég ætla aftur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli