Um peninga
Nú hef ég lent í því tvö mánaðamót í röð að klára heimildina á kreditkortinu mínu áður en nýtt tímabil hefst. Þetta er nýtt fyrir mér og sýnir að mánaðarheimildin sem hefur síðustu 4 árin dugað mér fullkomlega er allt í einu orðin of lág.
Þetta helgast reyndar af tvennu, annars vegar óvenjumiklum útgjöldum vegna utanlandsferða, tannlæknis, klippingar o.fl. (2009 er mitt 2007) og hinsvegar hækkandi verðlagi. Alveg klárlega. Ég hef áður sagt á þessu bloggi að þar sem ég átti engar eignir hafi kreppan fyrst og fremst huglæg áhrif á líf mitt hvað varðar framtíðaráætlanir, bjartsýni o.þ.h. Þetta hefur hinsvegar verið að breytast síðan og verða áþreifanlegra, frá því um áramótin hef ég fundið æ betur fyrir því með hverjum mánuðinum að launin mín endast mun skemur en áður, m.a. vegna launalækkunar í formi yfirvinnubanns.
Þrátt fyrir að góðæri hafi ríkt alla mína tíð á vinnumarkaði fram að þessu hef ég alltaf verið íhaldssöm (stundum kallað gamaldags) í fjármálum að því leyti að ég safna mér inn pening áður en ég eyði honum. Mér hefur alltaf gengið vel að spara, enda verið tilbúin að taka að mér mikla vinnu og lifa hóflega til að ná settum sparnaðarmarkmiðum. Þetta stuðlaði m.a. að því að ég réð við 6 mánaða Bandaríkjadvöl 2006 og 3 mánaða Asíurúnt 2008, með smærri ferðalögum inn á milli, sem allt var greitt úr eigin vasa - og kom í bæði skiptin heim með afgang í ferðasjóðnum.
Nú er allt í einu ekki auðvelt að spara lengur heldur þvert á móti mjög erfitt. Sparnaðaráætlunin mín (ég geri alltaf þannig nokkra mánuði fram í tímann) byrjaði strax að skekkjast á haustmánuðum en nú eftir áramót er hún í raun fokin út í veður og vind. Síðustu tvö mánaðamót hef ég ekki átt krónu eftir af laununum til að leggja til hliðar á sparnaðarreikninginn.
Ég veit að þetta er ekki stórt vandamál miðað við það þann bagga sem sumir þurfa að bera vegna fjármálahrunsins, en það gerir mig samt reiða að allt fari svona úr skorðum vegna aðstæðna sem ég ræð ekkert við. Sparnaðaráætlunin var gerð með framhaldsnám í huga en nú er svo sem í lausu lofti hvenær af því verður. Með beiskju hef ég líka hugsað sem svo að það skiptir orðið engu máli hvort ég nái að skrapa einhverju saman fyrir námi, ég mun samt í öllum tilfellum þurfa að steypa mér í skuldir ef ég ætla að flytja eitthvað út á meðan krónan er svona. Ég sakna þess að finnast heimurinn liggja að fótum mér, en það var víst í þeirri tilfinningu sem ég tók út minn skammt af góðærisvímunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli