„ÉG var hjá Önnu um helgina. Á laugardaginn var pizza og ís. Já og negrakossar. Svo fórum við í kínverskt box og hástökk. Svo sváfum við inni í stofu. Morguninn eftir fórum við upp á Reykjalund að heimsækja afa þeirra. Það var mjög gaman. Við fórum í þrekhjól, hjólastól, lyftulistir og margt fleira. Svo reyndum við að brjóta upp lás á hliði á leikskóla og fórum í hjólatúr." Vá hvað þetta var skemmtilegur dagur. Eða hann hljómar allavega þannig, miðað við hvernig ég lýsi honum í dagbókinni minni þegar ég var 10 ára. Þá vorum við skikkuð til að halda dagbók í skólanum til að efla ritfærni og tjáningarþroska eða eitthvað í þá áttina.
Núna er ég þakklát fyrir það því þessar dagbókarfærslur eru ómetanleg heimild um lífið sem var þegar helginni var reddað með því að draga allar dýnur úr rúmunum til að fara í kínverskt box og meira að segja spítalaheimsóknir voru fjör af því það var svo gaman að djöflast í hjólastólunum á gólfdúknum. Ég sakna þess tíma stundum. Til dæmis þegar ég fæ bréf frá Tollstjóranum í Reykjavík sem ég skil ekkert hvað þýðir annað en að ég muni tapa peningum af reikningnum mínum. Eða þegar bifreiðagjöld, óhjákvæmileg kaup á nýjum rafgeymi og hraðasekt koma í bakið á mér allt í sömu vikunni.
Ekki svo að skilja að lífið hafi verið algjörlega áhyggjulaust við 10 ára aldurinn, alls ekki. Ég man til dæmis að ég átti oft í miklu sálarstríði fyrir háttinn því ég gat ekki ákveðið hvort ég átti að hafa dyrnar lokaðar, ef kvikna skyldi í húsinu um nóttina, eða opnar ef það kæmi jarðskjálfti. Ákvað á endanum að loka þeim aðra hverja nótt. Ég man líka að ég fylltist stundum angist yfir tilhugsuninni um að verða fullorðin. Mér sýndist á mömmu og pabba að það væri hreint ekkert svo skemmtilegt. „Þarf ég þá að hætta að klifra í trjám?" hugsaði ég kvíðin með mér.
Þrátt fyrir gleði æskunnar kom nefnilega snemma í ljós að engum lætur betur en mér að trega og ég var þegar byrjuð, tregaði mína eigin barnæsku löngu áður en hún var búin. Ég tregaði ævintýrin sem ég hélt að ég myndi hætta að hafa gaman af, en vissi ekki að Harry Potter átti eftir að verða til og skemmta mér fram eftir öllum aldri. Ég tregaði ímyndunaraflið sem ég taldi að myndi glatast, en vissi ekki að ég átti eftir að gleyma mér heilu dagana í dagdraumum um ferðalög á framandi slóðir, í stað þess að læra fyrir háskólaprófin. Og ég vissi ekki heldur að ég ætti eftir að fara á þessa staði. Og klappa tígrisdýri.
Ég tregaði líka leikina sem ég hélt að ég myndi hætta að leika þegar ég væri föst yfir vinnu alla daga, en vissi ekki að um leið og mér gæfist frí gripi ég tækifærið til að velta mér upp úr drullusvaði í eltingarleik við bolta. Með öðru fullorðnu fólki. una@mbl.is
Birtist sem föstudagspistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins 31. júlí 2009.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli