ÞÁTTURINN Nýtt útlit hefur nú runnið sitt skeið á Skjá einum í bili. Karl Berndsen hefur þar lagt sitt af mörkum við að fínpússa hina heimsþekktu fegurð íslenskra kvenna enda geta bæði glæsilegustu konur og myndarlegustu karlar stundum þurft á hjálp að halda við að draga fram sínar bestu hliðar. Ég hef haft gaman af þessum þáttum þótt ég hafi í upphafi verið meira en tilbúin að vera óvægin og rífa þá í mig.
Þáttagerðin er ekki fullkomin enda í ódýrari kantinum og haldið uppi af auglýsingum, en Karl gæðir þá sjarma því hann er vinalegur og greinilega fagmaður.
Áhugaverðast er auðvitað að sjá umbreytingarnar og honum tekst vel að taka tillit til persónuleika kvennanna sem hann tekur í gegn. Eitt stingur þó í augu og það er hversu gríðarháir hælar eru á skónum sem Karl velur á konurnar. Þótt þeir séu smart hafa ekki allar konur úthald í að þramma um á 15 sentimetrum alla daga enda djöfullega þreytandi.
Sjálfri finnst mér gaman að hækka mig aðeins í loftinu og láta smella í hælum, en ég læt mér ekki detta það í hug að kaupa svona stultur eins og skellt er undir konugreyin. Kalli minn, þú pælir í þessu, ég býst við þér aftur á skjánum í haust.
Birtist sem Ljósvakapistill í Morgunblaðinu föstudaginn 29. maí 2009.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli