Amma töffari
Þessa helgina ætla ég inn í Bása í Goðalandi í haustlita- og grillferð Útivistar. Ferðafélagi minn verður hún amma, en hún hefur verið nánast fastagestir í vetrarferðirnar inn í Bása, til skiptis haustlita- eða aðventuferðina eftir því sem hentar.
Hún tók okkur barnabörnin með eitt af öðru í þessar ferðir, við Kári fórum einmitt með henni þegar ég var 12 ára eða svo. Þórsmörk er uppáhaldsstaðurinn hennar ömmu á jarðríki.
Ég hringdi í hana áðan til að athuga hvort hún vildi far með mér niður á BSÍ eftir vinnu, en ég ætla að koma við heima fyrst og smyrja nesti.
Amma: Nei, ég vil fá sæti fremst í rútunni svo ég ætla að fara snemma niður eftir og tek þá frá sæti fremst fyrir þig ef ég verð á undan þér
Ég: já ókei. Afhverju viltu sitja fremst í rútunni?
Amma: Ég þarf að vera fljót inn til að ná básnum mínum
Ég: já auðvitað (búin að gleyma því að amma sefur alltaf í sama básnum inni í Básum)
Amma: já þetta verður kannski í síðasta skipti sem ég fer í svona vetrarferð í Bása og þá væri nú ómögulegt að fá ekki sinn stað.
Ég: já einmitt, ætlarðu þá að hlaupa inn?
Amma: já. Það má auðvitað ekki fara inn á skónum svo ég reima þá af mér í rútunni til að geta verið fljótari.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli