þriðjudagur, september 15, 2009

Hugarfar

Ég er í þeim hópi, ásamt sennilega allri þjóðinni, sem sökkti sér í fréttalestur í kjölfar hrunsins. Áður þótti mér fátt óáhugaverðara en viðskiptafréttir eða hagfræði og fylgdist aðeins með pólitíkinni upp að vissu marki.

Þegar allt skall á var ég hinsvegar límd við hvern einasta fréttatíma í marga mánuði, tætti dagblöðin í mig og hékk svo yfir netumræðum um hrunið þar til augun urðu blóðhlaupin og brjóstið svo fullt af réttlátri reiði að það varð erfitt að festa svefn. Sjaldan fannst mér hafa skipt meira máli að vera virkur þjóðfélagsþegn, veita stjórnvöldum aðhald, vera með á nótunum og beita gagnrýninni hugsun.

Og áfram halda fréttirnar en á vissum tímapunkti sprakk úthaldið hjá mér. Það er takmarkað hversu mikið maður endist við að fylgjast öllum stundum með svartsýnum fréttum um bölvanlegt ástand. Það er takmarkað hversu lengi maður þoli að sveiflast stöðugt á milli bjartsýni, eins og mér tókst að byggja upp hjá sér milli stríða, og neikvæðni sem helltist yfir mig aftur þegar ný holskefla kom af leiðindafréttum.

Að því kom að taka þyrfti ákvörðun um hvorum megin við línuna ætti að ná andlegu jafnvægi og það gerði ég upp við sig í vor.

Ég ákvað að spila með bjartsýna liðinu. Frá og með maímánuði tók ég þá stefnu að gera lífið skemmtilegt og með góðri hjálp frá íslenskri náttúru og yndislegu sumarveðri gekk það eftir. Ég hef sjaldan átt ánægjulegra sumar en í ár og er alveg hætt að taka svartsýnar slagsíður. Þar sem þessi áætlun gekk svona vel eftir hef ég líka tekið formlega ákvörðun um að lífið eigi að vera mjög skemmtilegt í vetur og er þegar byrjuð að leggja línurnar að því að kom þeirri áætlun í framkvæmd.

Hluti af því er að fylgjast af jafnaðargeði með fréttum en standa svo upp án þess að láta þær eyðileggja fyrir sér daginn og njóta þess að vera til.

Engin ummæli: